Hugsjónir ofar fólki.

Það dylst engum að Vinstri Hreyfingin grænt framboð er flokkur með hugsjónir. Fólkið innan vébanda hans er fólk sem að hefur mjög sterkar skoðanir á hlutunum og því er mjög svo annt um sínar skoðanir. Að þessu leyti held ég að VG marki sér sérstöðu meðal annarra stjórnmálaflokka, fólkið er í þessu til þess að breyta heiminum. Fólk innan VG og skoðanir þess koma mér alltaf fyrir sjónir sem svona rómantískt fólk með rómantískar hugmyndir um Ísland sem grænt fagurt herlaust land. Allt þetta er góðra gjalda vert og fólk sem að hefur áhuga á stjórnmálum og þjóðmálum almennt á að fagna því að það sé til fólk með svona sterkar hugsjónir.

En ég sem frjálslyndur hægrimaður hef hugsjónir líka. Ég hef hugsjón um það að hér ríki stjórnvöld sem að leggur sig fram við það og ber raunar skylda til að útvega öllum þeim sem að hér vilja búa atvinnu og samastað, óháð því hvaðan fólk kemur, hvernig það er á litinn eða með hvaða nafni það nefnir sinn guð. Ég tel að eftir því sem að fleiri hendur vinna í þessu samfélagi okkar, þeim mun fleiri borga til samneyslunnar og eftir því sem að fleiri hausar borga til samneysluna þeim mun sterkara velferðarkerfi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi getum við búið til hér á Íslandi án himinn hárra skatta. Þið sjáið, munurinn á mínum hugsjónum og hugsjónum VG er að hugsjónir mínar snúast um fólkið. Þannig er það ekki algildur mælikvarði að VG sé eini flokkurinn með hugsjónir þó að þær séu meira áberandi þar en annars staðar.

En lykillinn að hugsjóninni minni er að hér ríki stjórnvald sem að lætur sér annt um það að skapa tækifæri til atvinnu, skapa tækifæri til þess að einstaklingurinn skapi hagvöxt og störf. Mín hugsjón snýst um það að stjórnvald á hverjum tíma geri sér grein fyrir því að til þess að hagkerfið starfi eðlilega þarf alltaf ákveðin uppbygging að vera til staðar. En nú eftir hrunið þurfum við að byggja allt upp frá grunni. Við þurfum að útvega þúsundum manna atvinnu.

En þess konar stjórnvald vantar. Stjórnvald sem að setur fólkið, atvinnu handa fólkinu og velferð fólksins ofar sínum eigin hugsjónum. Alltof oft hefur reynt á það undanfarnar vikur að þessi ríkisstjórn setji fólkið í fyrsta sæti. Ég hef alltaf haldið því fram að velferð fólksins sé bundin velferð samfélagsins og að fólki sé hvergi betur borgið en með að hafa atvinnu. Allt annað verður svo miklu auðveldara ef atvinnustig er gott.

En Vinstri grænir setja hugsjónir um grænt og fagurt land, herlaust land og þar fram eftir götunum ofar fólkinu í landinu. Það tekur hugsjónirnar sínar fram yfir fólkið sem að það situr þó í umboði fyrir. Eins og formaður Framsóknarflokksins orðaði það, "tugir fjárfestingakosta hafa komið fyrir iðnaðarnefnd en öllum kastað til hliðar". Hvers vegna? Hvers vegna í ósköpunum gera menn slíkt í árferði sem nú? Og úr því að þetta er staðreynd, af hverju er Stjórnarráð Íslands enn uppistandandi úr því að þessi tækifæri eru fyrir hendi en ríkisstjórnin stoppar þau öll.

Það er fyrir löngu komin tími til að Vinstri Hreyfingin Grænt framboð sýni að flokkurinn setji fólkið í landinu í fyrsta sæti. Flokkurinn er þar sem hann er af því að fólkið veitti honum umboðið og fólkið getur svipt hann umboðinu aftur. Brýnasta úrlausnarefni samtímans er að skapa störf og skapa ríkissjóði tekjur. Með því getum við minnkað niðurskurð, slegið á skattahækkanir og þegar frá líður lækkað skatta aftur og byggt upp þjónustu hins opinbera. Þjónustu sem að verið að skera niður núna. En það byggist á því að við nýtum þau tækifæri sem bjóðast, að við tökum ekki hugsjónir okkar fram yfir fólkið í landinu. Það koma tímar þar sem að við getum spurt okkur hvort að við viljum þetta eða viljum hitt vegna þess að hugsjónir okkar segja okkur þetta eða hitt. En nú er ekki sá tími. Þegar þú ert á hausnum og atvinnuleysi mikið þá hefur þú einfaldlega ekki þetta val. Þú verður bara að taka því sem býðst.


mbl.is Aflað gagna vegna ECA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú er ég hvorki vinstri grænn né frjálslyndur hægri maður. Þú telur að ríkið eigi að útvega fólki atvinnu og það finnst mér undarlegt hægra viðhorf.

Ég sé það fyrir mér að ríkið þvælist ekki fyrir einstaklingnum, liðki til í fjármögnun þeirra atvinnutækifæra sem hann skapar sér sjálfur og sjái til þess að fjármagnskostnaðurinn drepi hann ekki ef hann reynist kunna það sem hann tók sér fyrir hendur.

Og það er alveg morgunljóst að vinstri grænir bera mikla virðingu fyrir fólkinu í þessu landi með því að vernda auðlindir landsins fyrir stundarhagsmunum heimskingja svo næstu kynslóðir hafi aðgang og ákvörðunarrétt í sama hlutfalli og við.

Heimskingjar eru þeir sem í fjörutíu ár hafa ekki fengið neina frumlegri hugmynd en orkuver á heimsmælikvarða og stóriðju.

Þvílík eyðimörk sem hausinn á fólki verður eftir 6-10 ára akademiskt nám á kostnað skattborgara.

Árni Gunnarsson, 2.9.2010 kl. 23:17

2 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Það er ekki stjórnvalda að útvega fólki vinnu, þar ertu að snúa út úr greininni minni. En það er heldur ekki stjórnvalda að standa í vegi fyrir og traðka niður hverja einustu tilraun sem að einstaklingar koma með til þess að efla þetta samfélag okkar og til þess að skapa fólki vinnu.

Og ef að Vinstri Grænum er annt um fólkið í landinu þá hafa þeir mjög undarlega leið til þess að sýna það. Það sést á öllum glötuðu tækifærunum sem að VG hefur komið í veg fyrir vegna hugsjóna sinna. Það sést á skjaldborginni utan um heimilin í landinu, skjaldborgin sem að þjónar best tilgangi umsáturs í stað skjaldborgar.

Og þú kallar fólk heimskingja vegna skoðana sinna. Slík ummæli dæma sig best sjálf og eiga best við þá sem að láta slíkt frá sér.

Jóhann Pétur Pétursson, 3.9.2010 kl. 06:51

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Síðasta málsgreinin í svari þínu er röng. Vel má þó vera að ég sé heimskingi. En það er gegnum skoðanir sem við verðum metin á þennan mælikvarða.

Stalin, Hitler, og fleir slíkir voru heimskir menn. Þeir boðuðu framtíðarsýn sem reyndist vera leið dauða og tortímingar. Nú er það orðin staðreynd að þetta voru heimskir menn.

Ég held að þú ættir ekki að óska þess heitt að þessi stuttu skoðanaskipti okkar verði geymd handa komandi kynslóðum og metin á þeirra forsendum.

Sú þjóð sem kann ekki að lifa með sínu landi en krefst þess að fá að tortíma auðlindum þess og éta þær upp af því herrar hennar nenna ekki að hugsa á ekki gjöfult, gott og fagurt land skilið.

Þessi heimsókn mín hafði ekki þann tilgang að verja forystu Vinstri gr. Þar finnst mér heimskan hafa náð fótfestu enda heyrist mér hinn almenni flokksmaður sé búinn að fá nóg.

Landsherrarnir eiga að hvetja fólk til athafna en ekki berja það í hausinn með háum vöxtum og háum sköttum á fyrstu milljón hagnaðar. Það er nefnilega með fólk eins og auðlindir; ríkið þarf að kunna að lifa með því en ekki á því.

Enda er fólk auðlind ef grannt er skoðað og samfélagið ekki úrkynjað í siðrænum skilningi eins og nú eru vísbendingar um.

Þú skilur þetta þegar þú verður stór.

Árni Gunnarsson, 3.9.2010 kl. 08:14

4 Smámynd: Ignito

Athyglisverð grein ásamt svörum frá Árna.  En mér sýnist að gæti misskilnings í málflutningi hans og greinarhöfundar í tilsvörum við hvorn annan.  Báðir koma með atriði sem ég gæti sammælst um en í leiðinni setja þeir orð/skoðun í munn hins.

En þegar Árni sest á einhvern "eldri og vitrari" pall þá verð ég að viðurkenna að ég las hans málatilbúning með öðrum forsendum og álit mitt á honum féll til hins verra.  Það er stundum ágætt ef menn halda umræðum uppi með rökum en ekki ofláti.

Hann skilur það kannski þegar (ef) hann stígur af pallinum

Ignito, 3.9.2010 kl. 10:14

5 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

"Heimskingjar eru þeir sem í fjörutíu ár hafa ekki fengið neina frumlegri hugmynd en orkuver á heimsmælikvarða og stóriðju. " Ég verð þá að vera einn þessara heimskingja því að ég hef alltaf stutt og styð enn uppbyggingu orkuvera og stóriðju á meðan að ekkert kemur í staðinn sem að hefur sömu áhrif. En það er þetta eitthvað í staðinn sem að Vinstri Grænum hefur algerlega láðst að koma með.

En þau tækifæri hafa svo sem komið líka, samanber gagnaver og uppbyggingu einkafyrirtækis sem að rekur herþotur til æfinga hjá meðal annars Nató, hernaðarbandalagi sem að við erum í. En þá ber svo við að VG er á móti því líka. Það er dálítið magnað þar sem að það verkefni krefst hvorki mengandi stóriðju né heldur virkjana.

Landið okkar er fyrir okkur til þess að lifa á því. Í dag eru þúsundir atvinnulausir, fjöldinn allur af fólki lifir undir fátækramörkum. Ef að það kallar ekki á það að við nýtum landið okkar, þá veit ég ekki alveg hvað gerir það.

Það má vel vera að ég skilji þetta allt saman þegar ég verð stór. Skoðanir fólks mótast af lífreynslu og þetta er lífsreynslan mín og skoðanir mínar eftir 27 ár. Kannski breytast þær eftir tíu, tuttugu eða þrjátíu ár, hver veit. En þetta eru mínar skoðanir eftir 27 ár og þær eru alveg jafn gildar eins og mínar skoðanir tíu, tuttugu eða þrjátíu ár fram í tímann. En aldur gerir menn ekki vitra og aldur gerir ekki skoðanir þeirra réttari. Það eina sem aldur gerir er að hann gerir menn gamla.

Jóhann Pétur Pétursson, 3.9.2010 kl. 12:24

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hér er óþarfi að orðlengja mínar skoðanir. Hvergi hef ég borið lof á þá ákvörðun að hafna hernaðaræfingum á Keflavíkurflugvelli þó mér finnist hálfpartinn niðurlægjandi að neyðast til þess. Ég er heldur ekki tilbúinn að bera lof á það fálæti sem hugmyndir um tæknivædda læknisþjónustu fyrir útlendinga fékk hjá Vinstri grænum.

Ég hef á langri ævi hlýtt á margar hástemmdar ræður um mannauðinn á Íslandi og hversu mikilvægt sé að efla þekkingarsamfélagið. Í þann málaflokk hefur verið ausið almannafé um marga áratugi en þegar að kreppir í samfélaginu þá er mannauður þekkingarsamfélagsins hvergi sýnilegur.

Ég held mig við það að pólitísk köpuryrði stjórnmálamanna í garð þeirra sem ekki eru reiðubúnir til að skuldsetja ríkið til að mata erlendar málmbræðslur og benda ekki á neinar aðrar leiðir um nærfellt hálfrar aldar sögu vaxandi þekkingar - séu ekki mikillar aðdáunar virði.

Afdráttarlaust: Atvinnustefna ríkisins á að vera eftirsóknarvert viðskiptaumhverfi, vinsamlegt og hvetjandi.

Auðlindir okkar hafa nú þegar á örfáum árum verið nýttar til ómerkilegra og frumstæðra verkefna og nóg komið af slíku.

Hún var ekki metnaðarfull auglýsingin fræga um "sennilega lægst verðlögðu orku í heiminum" sem stjórnvöld sendu iðnríkjunum fyrir fáum árum.

Hvatvísi í málflutningi fylgir mér víst lengst af og ég skil afar vel að þér sem öðrum mislíki að gestirnir nálgist þig með mínum tilburðum.

Af viðbrögðum þínum sé ég að þú ert bæði greindur og vel fær um að sækja og verja þínar skoðanir.

Af einhverjum undarlegum ástæðum þakka ég þér fyrir skoðanaskiptin. 

Árni Gunnarsson, 3.9.2010 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhann Pétur Pétursson
Jóhann Pétur Pétursson

með skoðanir á um það bil öllu

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband