11.4.2009 | 14:21
Á landleið...
... hundleiðist manni. Vinnan er að mestu leyti búin, ekkert eftir nema þrif og eitthvað svona dundur og maður er farinn að bíða eftir því að komast í land. Ég tala nú ekki um þegar maður fer ekki í næstu veiðiferð eins og ég. Við á Faxa lögðum af stað um miðnætti í átt til Vopnafjarðar og erum rétt svona hálfnaðir núna, 14 tímum seinna. Sumir hlutir gerast bara aðeins of hægt.
Fyrsti sólarhringurinn var erfiður enda er sjóveiki einhver sú andstyggilegasta veiki sem að maður getur fengið. Eina ráðið við sjóveik er að halda áfram að éta, alveg óháð því hvað maður ælir mikið. Og með samstilltu átaki mín og sjóveikitaflna tókst mér að ná mér góðum á tæpum sólarhring. En klósett ferðirnar voru orðnar æði margar. Ég verð seint talin með sjóhraustustu mönnum sem að finnast í íslenskri sjómannastétt.
Á miðunum voru þetta eingöngu íslendingar, færeyingar og rússar sem að voru að veiðum. Það er ótrúlegt að þó að við séum á mjög stóru hafsvæði, hvað skipin safnast alltaf saman á smá blett til þess að veiða. Þetta getur líka valdið vandræðum því að allir eru með flottroll sem að á það til að vera mjög ofarlega í sjónum jafnvel fljóta alla leið upp á yfirborð þegar verið er að hífa. Þannig verða menn að passa sig að sigla hreinlega ekki yfir pokann hver hjá öðrum með tilheyrandi tjóni og hættu fyrir skipin. Rússarnir á svæðinu virðast samt hafa sínar eigin siglingareglur og venjur og þeim kemur ekkert við hvað aðrir eru að gera.
Það er ótrúlegustu hlutir sem að maður fer að sakna þegar maður fer á sjó. Fyrir utan að ég sakna allra vina minna, fjölskyldunnar og svo auðvitað Ingibjargar þá saknaði ég mest rjómaíss í þessari veiðiferð. Strax á mánudagskvöldið eiginlega rétt eftir að við vorum farnir, þá fór ég að hugsa um ís. Og ég er búinn að hugsa um ís alla vikuna. Og nú er kominn laugardagur og ég er ekki enn kominn yfir þessa ísfantasíu mína. Ég væri til í að fylla heilann heitapott af Brynjuís bara fyrir mig einann. Jú kannski myndi ég gefa einhverjum Akureyringum með mér því að þeir virðast halda mest upp á þennan ís.
Kolmunni sem og allur þessi uppsjávarfiskur er sá úldnasti fiskur sem að til er, eftir að hann er kominn um borð. Það þarf ekkert að slást um það, þetta er úldinn og ógeðslegur fiskur. Og í gær fékk ég smá fiskisturtu. Renna sem að er notuð til þess að koma aflanum ofan í lestarnar datt af skiljunni sem að hún á að vera föst við og ég fór ásamt öðrum út á dekk að koma henni á sinn stað. Og þar sem að ég stóð undir skiljunni þá fékk ég yfir mig einn og einn fisk ásamt slorinu og hreistrinu sem að fylgir með. Ég hef nú aldrei verið mikið fyrir að setja gel í hárið en þetta var samt alveg fyrirtaks greiðsla hjá mér. Verst hvað hún lyktaði illa. Restina af deginum var ég að mylja þennan viðbjóð úr hárinu á mér.
Núna erum við staddir á milli Austfjarða og Færeyja. Það kom mér svo sem ekkert á óvart að við skyldum verða sendir 90 sjómílum lengri leið til Vopnafjarðar heldur en til Færeyja. Þegar að olíukostnað kemur virðast vasar HBGranda vera ótæmandi. O jæja. En ég hefði svo verið til í að fara til Færeyja. En það næsta sem að ég komst Færeyjum var að sjá Straumey á plotternum hjá stýrimanninum þegar við sigldum þar fram hjá, sjálfsagt einar 50-100 sjómílur frá eyjunni. Nær Færeyjum kemst ég ekki að þessu sinni að minnsta kosti.
Færsluflokkar
Tenglar
Bloggarar
- Berglind mágkona Mín elskulega, yndislega, frábæra mágkona
- Berglind systir Mín elskulega systir.
- Elín Jóhanna eina krúttið sem eftir er
- Ingibjörg Mín heittelskaða sem að hefur unnið sér það til fræðgar að vera með mér í tæp 5 ár
- Kata Sætasta, skemmtilegasta og skrýtnasta Katan í öllum heiminum
- Palli Var krútt, er það örugglega ennþá inn við beinið
- Vera Mín fyrrverandi
- Sigurrós
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 801
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.