Er Ísland á byrjunarreit?

Einhvern veginn finnst mér eins og þessi ríkisstjórn okkar sé í tveimur veigamiklum málum að lenda algerlega á byrjunarreit. Fyrst ber að nefna stöðuleikasáttmálann svokallaða sem var gerður nú í sumar. Þessi sáttmáli var af stjórnarliðum kallaður sögulegur sáttmáli, enda svo sem ekki á hverjum degi sem að ríkið, vinnuveitendur og verkalýðshreyfingin komi sér saman um eitthvað. Stjórnarliðar sögðu þennan sáttmála svo sögulegan að hann jafnaðist á við þjóðarsáttina á sínum tíma. Þar er þó einn hængur á. Þjóðarsáttin markaði straumhvörf og lagði grunninn að hagvaxtarskeiði sem að seint verður leikinn eftir. Hagvaxtarskeiði þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn var svo heppinn að vera við völd mest allan tímann. Þjóðarsáttin var hins vegar betri en svo að hún væri orðin úrelt nokkrum mánuðum eftir að hún var gerð. Það virðist hins vegar stöðugleikasáttmálinn vera. Þannig virðast samningaviðræður við aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar Íslands vera á byrjunarreit.

Svo skal nefna Icesave málið svokallaða. Það viðurstyggilega mál, mál sem að varð til í tíð Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hefur tekið allt allt allt of mikinn tíma ríkisstjórnar Íslands og Alþingis. Enn og aftur virðist það mál ætla að dúkka upp í sölum Alþingis. Enn virðast stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar ætla að takast á um skuldbindingar, hvort þær séu of miklar eða viðráðanlegar og hverjum sé um að kenna. Eini málflutningur stjórnarliða virðist vera sá að Sjálfstæðisflokknum sé um að kenna. Vissulega má færa rök fyrir því. Að sama skapi má færa rök á móti því. En að eini málflutningurinn í jafn veigamiklu máli sé sá hverjum sé um að kenna er hins vegar brjóstumkennanlegt. En það samkomulag sem að Steingrímur Jóhann Sigfússon skrifaði undir, við Hollendinga og Breta virðist ekki halda, það næst ekki að koma því gegnum Alþingi og þær samningaviðræður virðast vera á byrjunarreit.

Uppbyggingin á Íslandi er algerlega á byrjunarreit. Enn hefur ríkisstjórn Íslands ekki tekist að útvega fjármagn til þess að hér sé hægt að byggja upp nýtt bankakerfi. Skýringin á því er aðeins ein, hún er Icesave.  Enn hefur skilanefndum bankanna ekki tekist að leiða til lykta hvað verður í raun um hið gamla bankakerfi sem að hrundi. Og nú blasir við enn ein ógnin. Það bankakerfi sem að var myndað með neyðarlögunum í október 2008 kann að vera ógnað af fjárhagsvanda heimilanna í landinu. Annað bankahrun blasir þá við ef að heimilin í landinu geta ekki staðið í skilum. Það eina sem að hefur gerst í efnahagslífi þjóðarinnar er að vond staða hefur versnað til mikilla muna. Hvað heimilin varðar eru þau miklu aftar en á byrjunarreit. Þau eru hvergi nærri því að komast á byrjunarreit. 

Þjóðarsálin umhverfðist við upphaf hrunsins á Íslandi. Þegar ég var staddur í Bretlandi í febrúar á þessu ári bárust mér fréttir um ofbeldi á götum úti, valdstjórnin beitt ofbeldi og að Vinstri Grænir hefðu í skjóli ofbeldis og óeirða komist til valda. Frá upphafi hrunsins hefur þjóðin leitað logandi ljósi að sökudólgum. Fyrstu sökudólgarnir voru auðfundnir. Eigendur bankanna, stjórnendur þeirra, ríkisstjórn Íslands, Seðlabankastjórarnir og að frátöldum Sjálfstæðisflokknum voru auðfundnir mestu glæpamenn Íslandssögunnar. Að vissu leyti eða að öllu leyti er slík viðbrögð og slík reiði eðlileg og skiljanleg...en ekki endalaust. Í dag, 11 mánuðum eftir hrun er þjóðin ennþá að leita að sökudólgum. Dómstóll götunnar hefur átt mjög annríkt síðan hrunið varð. Hafi menn og konur brotið lög árin fyrir hrun eða í aðdraganda hrunsins mun það taka mörg ár að ná réttlætinu fram. Hins vegar kemur að því að þjóðin þarf að finna frið í huga sínum, horfast í augu við þá óhrekjanlegu staðreynd að hún, ekki síður en útrásarvíkingar og ríkisstjórn Íslands dönsuðu í kringum gullkálfinn í uppsveiflu síðasta áratugar. Þjóðin skuldsetti sig langt um efni fram, eyðslan var ekki síður þjóðarinnar en annarra og þannig brást þjóðin sjálfri sér ekki síður en aðrir brugðust þjóðinni. Uppbyggingin getur ekki hafist fyrr en þjóðin sleppir tökum á kreppunni í huga sínu. Um leið og það gerist þá sér fólk að það felast ekki síður tækifæri í kreppu en þau fólust í góðærinu.


mbl.is Vaxtaákvörðun á morgun markar straumhvörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhann Pétur Pétursson
Jóhann Pétur Pétursson

með skoðanir á um það bil öllu

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 801

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband