Ég er á móti persónukjöri af einni ástæðu...

...vegna þess að það er skylda okkar að hafa þær reglur sem að gilda um atkvæðagreiðslur í kosningum skýrar og einfaldar. Það er nú bara staðreynd að það á mjög margt fólk nógu erfitt með það í dag að kjósa. Við erum að tala um gamalt fólk eða fólk sem að glímir við andlega sjúkdóma. Er jafnvel eitthvað andlega heft. Þetta fólk á samt allt kosningarétt. Þess vegna er það skylda okkar hinna að hafa kosningareglur eins einfaldar og kostur er. Það er hroki af hálfu þeirra sem að segja að við eigum að hafa svona reglur og hins segin reglur vegna þess að það er svo gott fyrir lýðræðið, þegar við í sömu andránni sviptum hluta kjósenda í raun atkvæðaréttinum. Það er mjög alvarlegur hlutur. Um hag þessa fólks er ég mjög uggandi yfir þegar að lýðræðisspekúlantarnir fara að predika um það hvaða reglur við þurfum að setja til þess að lýðræðið verði nú betra. 

Fyrir nokkrum árum var gerð sú breyting á kosningalöggjöfinni að þá var leyfðar útstrikanir af þeim lista sem að þú kaust, ekki öðrum listum. Þetta virkar ekki mjög flókið? En enn þann dag í dag er mikið um það að kjörseðlar eru ógildir vegna þess að fólk kýs einn lista en strikar út af þeim næsta. 

Það er mikið stollt í því að fá að kjósa. Fyrir okkur, líkamlega og andlega heilbrigð er það kannski ekkert tiltökumál, en fyrir fólk sem að á í andlegum erfiðleikum eða að einhverjum orsökum sé líkamleg eða andleg heilsa farin að gefa sig, er það mikið keppikefli. Ég held því fram að með þessu sé Jóhanna og hennar ríkisstjórn að sýna af sér þann gríðarlega hroka að ræna þetta fólk kosningaréttinum vegna þess að þetta fólk óttast eitthvað sem að er flókið. Þið getið sjálf hugsaði ykkur afa ykkar og ömmur, langafa og langömmur. Bara það að fara út í búð getur verið nógu skelfilegt þegar að andleg geta er ekki alveg til staðar. Hvað þá að fara að raða 20 nöfnum upp á nýtt. 

Þetta er ljótt, þetta er hneyksli og svívirða af hálfu Jóhönnu Sigurðardóttur og hennar ríkisstjórn enda hefur konan sýnt það að hún er ekki manneskja lítilmagnans nema síður sé. Sem félagsmálaráðherra á hún líka íslandsmet í að skerða minnir mig barnabætur. 


mbl.is Persónukjör á næsta ári?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugaverður punktur. Við þurfum að taka margar svona óþægilegar ákvarðanir í framtíðinni.

Sigurður Ingi (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 22:27

2 Smámynd: Björn Halldór Björnsson

Það má ætla að það fólk sem er ófært um þetta hafi þann valkost að kjósa bara flokk, eins og á utankjörfundum. Ef fólk er ófært um þetta tiltörulega einfalda verkefni, þá er víst að það er ekki fært um að raða á lista og ætti að láta aðra um það verk.

Björn Halldór Björnsson, 12.5.2009 kl. 23:22

3 Smámynd: Helgi Kr. Sigmundsson

Það eru mörg sjónarmið í þessu máli.  Einnig er ákveðin hætta á því að hin lýðræðislegu sjónarmið víki þegar kemur að svona persónukjöri.  Kosningamálin verði persónubundin en ekki háð stefnum flokk og almennum útfærslum.  Margir hafa miklar efasemdir um að þetta sé æskilega þróun einmitt vegna þessarar kröfu um lýðræði.

Ég tel reyndar að kerfið sem við búum við sé ágætt og eins og þeir segja í BNA: "why fix what ain´t broken?".

Helgi Kr. Sigmundsson, 13.5.2009 kl. 00:53

4 identicon

Áhugaverður punktur

Marinó Muggur Þorbjarnarson (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 09:38

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Nú þegar er mikið af því fólki sem þú nefnir í raun misnotað af kerfinu. Það er fjöldinn allur af fólki sem er í raun vanhæft til verksins, með kosningarétt. Fólk sem kýs án þess að hafa haft til þess getu í jafnvel fjölda ára, að fylgjast með því hvað er að gerast í pólitíkinni almennt. Er það eðlileg framkoma við kosningaréttinn?

Teljum við að svarið við spurningunni minni sé já, að þá er það skýr skylda okkar að koma hér á leikreglum þar sem þetta fólk er vel og almennilega upplýst um stöðu mála frá a-ö og jafnframt farið ítarlega í gegnum það með þeim hvernig beri að haga sér við kosninguna. Hafi fólk samt ekki getu til þess að kjósa eftir slíka kennslu, er það mitt mat að það fólk eigi ekki að hafa kosningarétt. Það má jú líka misnota frelsi með of miklu frelsi fárra.

Persónukjörið hefur lengi verið mér hjartans mál og ég er algerlega ósammála Helga Kristni með það að núverandi kerfi sé í lagi. Það er einmitt núverandi kerfi sem er ein meginástæða þess að hér ríkir orðið alræði flokksræðisins og framkvæmdavaldsins á kostnað þrískiptingu valdsins og hugsjóna einstakra frambjóðenda flokkanna.

Við það að taka upp persónukjör geta skyndilega allir þeir sem vilja, boðið sig fram innan eða utan flokka, óháð því hvort að þeir hinir sömu séu algerlega fylgjandi "flokkslínunni" eða ekki. Í dag er kerfið þannig að það kemst enginn ofarlega í framboð hjá til dæmis D eða S listum, án þess að vera orðinn besti vinur "aðal" fyrst og á leiðinni þangað selja stóran hluta þeirra hugsjóna og baráttumála, sem að komu viðkomandi yfirleitt af stað í pólitík í upphafi.

Baldvin Jónsson, 13.5.2009 kl. 09:44

6 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Baldvin þú sviptir engan kosningaréttinum. Þannig ertu að ekki aðeins gera lítið úr viðkomandi heldur ertu að segja viðkomandi að hann sé of vitlaus og of heimskur til þess að hafa þau grundvallarmannréttindi sem að okkur eru sjálfsögð. Þarna ertu með öðrum orðum að taka undir þann gríðarlega hroka sem að þessi tillaga hefur í för með sér.

Ef að fólk vill hafa áhrif á niðurstöður lista, þá kýs það í prófkjörum flokka. Ég hef sjálfur kosið í prófkjörum og tekið þátt í flokkastarfi og sé nákvæmlega ekkert að þeirri leið. 

Mín skoðun er sú að þegar kemur að kjördegi þá eigum við að kjósa um málefni, ekki persónur. Við eigum að kjósa þann flokk sem að við treystum til þess að koma í gegn þeim málefnum eða gera þær breytingar sem að okkur líkar. Hvort þingmaðurinn heitir Jón eða Gunna skiptir bara engu máli. Ef að við viljum hafa áhrif á það hvort manneskjan í efsta sæti heitir Jón eða Gunna, þá kjósum við í prófkjöri. Mér finnst líka rétt að benda á að nú í síðustu kosningum bauð einn flokkur fram ekki lista í eiginlegum skilningi heldur aðeins persónur. Efstu menn af þessum listum mættu svo í útsendingar sjónvarps út um allt landi með þann boðskap "að þeir gætu aðeins talað fyrir sína hönd en ekki hönd annarra í flokknum". Hvernig í veröldinni ætti svoleiðis flokkur að taka þátt í stjórnarsamstarfi. Þú semur ekki við flokkinn sem hóp um málamiðlanir heldur þarftu að semja við hvern og einn. Ég veit það fyrir mitt leyti þá leit þessi hópur ekki mjög traustvekjandi út. 

Þér er frjálst að hafa þína skoðun en það að segja að einhver eigi að missa kosningaréttinn af því að við mannanna börn höfum sett of flóknar kosningareglur er virkilegur hroki. Afar, ömmur, langafar og langömmur allt eru þetta góðir og gildir þjóðfélagsþegnar, alveg eins og þú og hafa nákvæmlega sama rétt og þú til þess að neyta atkvæðisréttar síns.

Þetta er mjög vandmeðfarið verkefni og það skiptir miklu máli hvernig kosningalöggjöfinni verður breytt. Það er ekki lausn í mínum huga að breyta bara kosningalöggjöfinni og þeir sem að geta ekki farið eftir henni, sviptum þá kosningaréttinum. Auk þess á fólk ekki að þurfa að fara í kennslu til þess að kjósa. Okkur ber skylda að hafa kosningareglur þannig úr garði gerðar að allir geti farið eftir þeim án vandkvæða. 

Jóhann Pétur Pétursson, 13.5.2009 kl. 12:18

7 Smámynd: Baldvin Jónsson

Jóhann Pétur, hér einfaldlega tekurðu orð mín úr samhengi.

Ég sagði hvergi að við værum með of flóknar kosningareglur eða að þær væru tilvonandi. Ég sagði hins vegar að þeir sem eftir þjálfun í kerfinu geta engu að síður ennþá ekki tekið þátt í því, eigi ekki að leyfa þeim sömu aðilum að kjósa. Það er ofbeldi að láta fólk kjósa sem að hefur ekki hæfileika til þess að vita um hvað málið snýst.

Móðir mín þjáðist af heilabilun síðustu ár ævi sinnar. Í kringum umgengni við hana og eftir að hafa hlustað á starfsfólk á öldrunarstofnunum og deildum fyrir heilabilaða lýsa því hvernig fólki er stýrt af "flokkshollum" aðilum við kosningu, að þá komst ég á þessa skoðun mína.

Fullt af fólki hefði ekki kosið til dæmis D lista við síðustu kosningar ef að það hefði raunverulega gert sér grein fyrir því hvað það var að gera.

Baldvin Jónsson, 16.5.2009 kl. 14:55

8 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Ég er hér ekki að tala um heilabilað fólk heldur einfaldlega gamalt. Gamalt fólk þarf ekki að vera að heilabilað til þess að eiga í erfiðleikum að gera eitthvað sem að virkar flókið og jafnvel forðast það eins og til dæmis flóknar kosningareglur. Þess vegna er það ábyrgðarhluti okkar hinna að búa svo um hnútanna að jafnvel gamla fólkið geti kosið. Það gerum við ekki með því að búa til einhverjar reglur að fólk megi eða eigi að raða 20 frambjóðendum upp á nýtt. Það er hrokinn sem að ég er að vitna í því að með þessum reglum er verið að útiloka gamla fólkið frá kosningunum og ég stend við þau orð. Það að kjósa er fyrir mjög mörgum hátíðisstund því að þeim finnst á þeim tímapunkti þau vera góðir og gildir þegnar í þessu landi. Það er hroki og ofbeldi í garð þessa fólks að gera kosningareglur svo flóknar að það geti ekki eða þori ekki að fara á kjörstað og kjósa, sem það hefði annars gert.

Með þessum orðum þínum lætur þú það hljóma þannig að fólk sé dregið á kjörstað gegn vilja sínum. Þannig er það auðvitað ekki en ég óttast það mög að fólk sem að er einfaldlega gamalt, hræðist þessar nýju kosningareglur, skiljið þær ekki alveg og þori þess vegna ekki á kjörstað. Það er hættan við þetta persónukjör og þess vegna segi ég að þessar reglur útiloki hluta kjósenda. Fólk þarf ekki að vera heilabilað til þess að skilja ekki flókna hluti heldur einfaldlega gamalt. Og ég kalla það hroka af hálfu þeirra sem að vilja setja flóknar kosningareglur því að það er þá að gefa það í skyn að kosningar séu bara fyrir þá sjálfa. Kosningarnar eru fyrir alla óháð aldri og andlegum eða líkamlegum burðum. Okkur ber að tryggja að allir geti kosið en ekki bara einhverjir sem að hafa hæfileikann til þess að fara eftir einhverjum flóknum persónukjörsreglum. 

Svo er þessi persónukjörsleið aðför að litlum flokkum í þessu landi. Hvaða flokkar aðrir en flokkar með þúsundir flokksmanna geta stillt upp 20 manna listum í öllum kjördæmum þar sem hver og einn einasti maður verður að vera tilbúinn til þess að taka 1. sætið á listanum?

Jóhann Pétur Pétursson, 17.5.2009 kl. 22:33

9 Smámynd: Baldvin Jónsson

Misskilningurinn okkar á milli liggur augljóslega í skilgreiningunni á vanhæfi. Gamalt fólk er að sjálfsögðu ekki almennt vanhæft og myndi mér aldrei detta í hug að gefa slíkt í skyn. Hef þvert á móti verið mikill talsmaður þess að stór hluti vanda okkar í dag sé einmitt hvað við hlustum orðið lítið á reynslu þeirra sem eldri eru.

Reglurnar þurfa hins vegar ekki að vera svo flóknar sem þú gefur hér ítrekað í skyn,  ekki frekar en það að hafa þekkingu á þeim flokki sem fólk vill kjósa.

Reyndar eru líka hugmyndirnar um persónukjör sem verið hafa í loftinu ekki að slá það út af brorðinu að fólk geti kosið flokka. Hugmyndirnar ganga út á að þeir listar sem það vilja, geti boðið fram óraðaða lista sem kjósendur síðan raða eftir eigin vilja.

Ef aftur á móti hugmyndin um persónukjör myndi ganga alla leið eru allar líkur á því að einn daginn yrði aðferðin sú að kjósendur myndu einfaldlega bara merkja við þá 5 eða 10 frambjóðendur sem þeim hugnast best. Það er nú varla mjög flókið ferli eða hvað?

Baldvin Jónsson, 18.5.2009 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhann Pétur Pétursson
Jóhann Pétur Pétursson

með skoðanir á um það bil öllu

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 801

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband