Hugsjónir ofar fólki.

Það dylst engum að Vinstri Hreyfingin grænt framboð er flokkur með hugsjónir. Fólkið innan vébanda hans er fólk sem að hefur mjög sterkar skoðanir á hlutunum og því er mjög svo annt um sínar skoðanir. Að þessu leyti held ég að VG marki sér sérstöðu meðal annarra stjórnmálaflokka, fólkið er í þessu til þess að breyta heiminum. Fólk innan VG og skoðanir þess koma mér alltaf fyrir sjónir sem svona rómantískt fólk með rómantískar hugmyndir um Ísland sem grænt fagurt herlaust land. Allt þetta er góðra gjalda vert og fólk sem að hefur áhuga á stjórnmálum og þjóðmálum almennt á að fagna því að það sé til fólk með svona sterkar hugsjónir.

En ég sem frjálslyndur hægrimaður hef hugsjónir líka. Ég hef hugsjón um það að hér ríki stjórnvöld sem að leggur sig fram við það og ber raunar skylda til að útvega öllum þeim sem að hér vilja búa atvinnu og samastað, óháð því hvaðan fólk kemur, hvernig það er á litinn eða með hvaða nafni það nefnir sinn guð. Ég tel að eftir því sem að fleiri hendur vinna í þessu samfélagi okkar, þeim mun fleiri borga til samneyslunnar og eftir því sem að fleiri hausar borga til samneysluna þeim mun sterkara velferðarkerfi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi getum við búið til hér á Íslandi án himinn hárra skatta. Þið sjáið, munurinn á mínum hugsjónum og hugsjónum VG er að hugsjónir mínar snúast um fólkið. Þannig er það ekki algildur mælikvarði að VG sé eini flokkurinn með hugsjónir þó að þær séu meira áberandi þar en annars staðar.

En lykillinn að hugsjóninni minni er að hér ríki stjórnvald sem að lætur sér annt um það að skapa tækifæri til atvinnu, skapa tækifæri til þess að einstaklingurinn skapi hagvöxt og störf. Mín hugsjón snýst um það að stjórnvald á hverjum tíma geri sér grein fyrir því að til þess að hagkerfið starfi eðlilega þarf alltaf ákveðin uppbygging að vera til staðar. En nú eftir hrunið þurfum við að byggja allt upp frá grunni. Við þurfum að útvega þúsundum manna atvinnu.

En þess konar stjórnvald vantar. Stjórnvald sem að setur fólkið, atvinnu handa fólkinu og velferð fólksins ofar sínum eigin hugsjónum. Alltof oft hefur reynt á það undanfarnar vikur að þessi ríkisstjórn setji fólkið í fyrsta sæti. Ég hef alltaf haldið því fram að velferð fólksins sé bundin velferð samfélagsins og að fólki sé hvergi betur borgið en með að hafa atvinnu. Allt annað verður svo miklu auðveldara ef atvinnustig er gott.

En Vinstri grænir setja hugsjónir um grænt og fagurt land, herlaust land og þar fram eftir götunum ofar fólkinu í landinu. Það tekur hugsjónirnar sínar fram yfir fólkið sem að það situr þó í umboði fyrir. Eins og formaður Framsóknarflokksins orðaði það, "tugir fjárfestingakosta hafa komið fyrir iðnaðarnefnd en öllum kastað til hliðar". Hvers vegna? Hvers vegna í ósköpunum gera menn slíkt í árferði sem nú? Og úr því að þetta er staðreynd, af hverju er Stjórnarráð Íslands enn uppistandandi úr því að þessi tækifæri eru fyrir hendi en ríkisstjórnin stoppar þau öll.

Það er fyrir löngu komin tími til að Vinstri Hreyfingin Grænt framboð sýni að flokkurinn setji fólkið í landinu í fyrsta sæti. Flokkurinn er þar sem hann er af því að fólkið veitti honum umboðið og fólkið getur svipt hann umboðinu aftur. Brýnasta úrlausnarefni samtímans er að skapa störf og skapa ríkissjóði tekjur. Með því getum við minnkað niðurskurð, slegið á skattahækkanir og þegar frá líður lækkað skatta aftur og byggt upp þjónustu hins opinbera. Þjónustu sem að verið að skera niður núna. En það byggist á því að við nýtum þau tækifæri sem bjóðast, að við tökum ekki hugsjónir okkar fram yfir fólkið í landinu. Það koma tímar þar sem að við getum spurt okkur hvort að við viljum þetta eða viljum hitt vegna þess að hugsjónir okkar segja okkur þetta eða hitt. En nú er ekki sá tími. Þegar þú ert á hausnum og atvinnuleysi mikið þá hefur þú einfaldlega ekki þetta val. Þú verður bara að taka því sem býðst.


mbl.is Aflað gagna vegna ECA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaðabótakrafa sem að nær upp í sjálfann himingeiminn.

Fari svo að þessi viðskipti verði ógilt þá verða að vera mjög sterkar lagalegar forsendur fyrir því. Það er vandséð að þær séu til staðar. Hafi Magma Energy farið að gildandi lögum en ríkið engu að síður sett fótinn fyrir starfssemi fyrirtækisins, þá má teljast óumflýjanlegt annað en að fyrirtækið krefji ríkið um bættan skaða. Þá verða dómstólar að leggja mat á verðmætaaukningu HS Orku miðað við viðskiptaáætlanir Magma Energy. Það má teljast líklegt að Magma Energy leggi fram ýtrustu kröfur þannig að skaðabæturnar gætu orðið gríðarháar.

Til dæmis ef við bara tökum samninga sem að HS Orka er búið að gera við Norðurál vegna álvers í Helguvík. Virkjun og sala slíkrar orku eykur verðmæti HS Orku gríðarlega. Þessi verðmæti myndu gefa af sér tekjur sem að Magma Energy yrði af, slái ríkið viðskipti þess við Geysir Green Energy út af borðinu. Varlega má áætla að andvirði sölu á raforku til eins álvers sé talin í milljörðum á ári. Svo má margfalda 65 ár fram í tímann. Einhverjir milljarðar á ári, 65 ár aftur í tímann, bara vegna sölu til álvers í Helguvík.

Svo veit enginn hvaða frekari áætlanir Magma Energy hafði um starfssemi HS Orku. Skaðabætur vegna þeirra mögulegu viðskipta gæti bæst við þeirra viðskipta sem að þegar er búið að semja um.

Svo er ótalin áhrifin á Norðurál. Ef að Helguvíkurverkefnið dettur upp fyrir sig, sökum þess að þessi viðskipti Magma Energy verða stöðvuð þá er auðvelt fyrir Norðurál að sýna fram á skaða. Þegar hafa verið lagðir 40 milljarðar í verkefnið í Helguvík. Þó að ekki sé tekið tillit til mögulegra tekna af álverinu þá er skaðinn þegar orðinn 40 milljarðar.

Stundum er talað um himinháa reikninga. Ég held að mögulegur reikningur sem að fæst af gjörðum og andstöðu Vinstri Hreyfingarinnar Græns framboðs í þessu máli geti náð langt út í himingeiminn. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að komi til skaðabótamáls á hendur ríkinu vegna þessa máls, þá verður það vafalaust stærsta skaðabótamál í sögu Íslands.


mbl.is Óvissa um eignina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímasetningin kolröng.

Hvaða ráðuneyti hafa með beinum hætti með atvinnumál að gera. Helst ber að nefna ráðuneyti sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnað. Önnur ráðuneyti koma að vísu að atvinnumálum en þá óbeint. Þær hugmyndir sem að ég hef heyrt er að sameina þessi þrjú ráðuneyti í eitt, atvinnuvegaráðuneyti. Á tíma þar sem að atvinnulausir telja tólf þúsund manns telur ríkisstjórnin heppilegt að sameina þau ráðuneyti sem mest mæðir á varðandi atvinnuuppbyggingu í landinu. Mér finnst þetta vera kolröng tímasetning.

En kannski skiptir þetta engu máli. Annar stjórnarflokkurinn(það er Vinstri Grænir) hefur það orð á sér að standa í vegi fyrir allri atvinnuuppbyggingu í landinu. Að mínu viti hefur hann ekki gert neitt til þess að losa sig við það orðspor, heldur þvert á móti gert allt til þess að staðfesta allt það ljóta sem að um þann ágæta flokk er sagt. Kannski sér Samfylkingin það að enginn atvinnuuppbygging verði nema að Samfylkingarráðherra sé komið fyrir í nýja atvinnuvegaráðuneytinu. Ef svo er þá gæti þessi breyting verið hið besta mál.

Og hvað varðar störf Jóns Bjarnasonar þá held ég að fáir ef nokkrir muni sjá eftir honum. Innan sjávarútvegsins munu menn alla vega í besta falli gráta krókódílatárum. Hann hefur komið fyrir sjónir sem gamall þrjóskur karl sem að aldrei gefur eftir. Á stuttum tíma sínum sem ráðherra þá hefur honum tekist að fá samtök útgerða, sjómanna og landverkafólks upp á móti sér. Slík var óánægjan á fjölmennum fundi sem að haldinn var í Vestmannaeyjum að það lá við að Vestamanneyingar segðu sig úr lögum við Ísland, bara til þess að losna við ráðherrann Jón Bjarnason.

En ég held að þegar á öllu er botninn hvolft þá eru breytingar um sameiningu ráðneyta, fækkun ráðneyta og ráðherra af hinu góða en á þessum tímapunkti er þær alls ekki réttlætanlegar. Ekki nóg með að það þurfi töluvert að gera í atvinnumálum þjóðarinnar eftir þær efnahagssviptingar sem að á okkur hefur dunið heldur erum við líka í umsóknarferli um ESB. Það ferli krefst töluverðrar vinnu af ráðuneytunum og ekki síður ráðherrunum. Á meðan að slíkt ferli stendur yfir, hvernig svo sem það verður svo til lykta leitt með inngöngu eða ekki, eru sameiningar og fækkun ráðuneyta alger fjarstæða.


mbl.is Sigur fyrir Jón Bjarnason
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksgæðingar fá vinnu.

Núverandi stjórnarflokkar virðast vera á fullu við að koma fyrir flokksgæðingum innan stjórnkerfisins. Það var reynt í máli Runólfs sem að átti að verða talsmaður skuldara en DV þótti ástæðu til þess að fetta fingur út í það að stórskuldugur maður sem að hafði þar að auki fengið töluverðar fjárhæðir niðurfelldar yrði sérlegur talsmaður skuldara. Mér finnst hins vegar sú staðreynd að Runólfur kunni að snúa á kerfið sýna að hann væri sá hæfasti til starfans. Hann gæti miðlað að reynslu sinni til allra þeirra sem að eru skuldugir og þurfa að fá gefins á silfurfati niðurfellingu skulda.

Nú er Íbúðarlánasjóður næstur í röðinni sem athvarf fyrir flokksgæðing. Ásta er ekki hæf til starfans, sennilega sökum þess að hún er ekki flokksgæðingur og því þarf að setja á fót valnefnd til þess að finna heppilegan flokksgæðing úr röðum umsækjenda.

En ég skil ekki deilurnar. Það er þekkt staðreynd úr fyrri tíð að aðrir flokkar hafa verið duglegir við að koma flokksgæðingum að. Undanskil ég engan flokk í því sambandi. Sennilega þykir núverandi stjórnarflokkum mjög mikilvæg að koma réttum flokksgæðingum að til þess að ýta út öllum gömlu flokksgæðingunum, alla vega fækka þeim til mikilla muna. Flokksgæðingar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks munu líklega týna tölunni þegar fram í sækir.

Kannski deilurnar séu vegna þess að við það að koma flokksgæðingum að þá stunda stjórnarflokkarnir baktjaldamakk og taka ákvarðanir í reykfylltum bakherberjum (eru reykingar innandyra ekki annars bannaðar í Alþingishúsinu??? Hvers vegna ættu bakherbergin að vera reykfyllt???) Það er eitthvað sem að þeir töldu kjósendum trú um að þeir ætluðu ekki að gera og þóttust þess vegna vera betri en vondi Sjálfstæðisflokkurinn. Annað hefur samt komið á daginn.

En ég er með lausn á málinu. Af hverju opna stjórnarflokkarnir ekki bara vinnumiðlun. Þangað geta allir leitað sem að vilja gerast flokksgæðingar Samfylkingar og VG og sleikja óæðri enda stjórnmálamanna í vinnutímanum. Þannig verða þeir seint sakaðir um baktjaldamakk. Þeir einfaldlega bjóða hverjum sem er að gerast þeim hliðhollir og verða sannir flokksgæðingar. Að launum fá þeir að gerast blýantsnagarar á góðum skrifborðsstól í stjórnkerfinu. Ekki amalegt það.


mbl.is Segist ekki hafa tekið afstöðu til umsækjenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsjónir ofar öllu.

Ég legg til að það verði algjörlega bannað með öllu að stjórnmálamenn tali um hvað við erum svo heppin að eiga þetta land. Að það verði algjörlega bannað að tala um orkuna sem að er bundin í fallvötnunum og í jarðvarmanum.

Þetta land er fyrir þau okkar sem að þar búum. Við höfum lært að beisla náttúruöflin að einhverju leyti okkur til hagsældar. En afstaða Vinstri Hreyfingarinnar Græns framboðs um það að hvergi megi svo mikið sem stinga niður skóflu segir að landið sé fyrir landið sjálft, ekki fyrir okkur sem að búum á því. Þær segja þetta berum orðum að hagsmunir náttúrunnar gangi fyrir hagsmunum fólksins í landinu. Það sama á við þegar að talað er um HS Orku. Þegar að VG velur milli þess að halda í sínar hugsjónir eða verja hagsmuni fólksins í landinu, fólksins sem að er atvinnulaust, fólksins sem að getur ekki staðið við sínar skuldbindingar þá eru skilaboðin einföld. Fólkið getur farið í rassgat. Við Vinstri Græn höldum í okkar hugsjónir og er skítsama hvaða áhrif það hefur á aðra.


mbl.is „Snýst um friðlýsinguna sjálfa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræði á villigötum.

Lýðræðið getur tekið á sig ótrúlegustu birtingarmyndir. Einhvern tíma hefur einhver, mig grunar helst að hann hafi verið í Samfylkingunni, dottið á höfuðið og fann það út að stjórnarskráin væri úrelt. En í stað þess að nýta núverandi fyrirkomulag, fyrirkomulag sem að felur í sér mjög breiða samstöðu stjórnmálaflokka þá fær sá hinn sami þá frábæru hugmynd að stofna til stjórnlagaþings.

Okkar helsti lögfræðispekingur varar við hugmyndinni. Í fyrsta lagi er enginn trygging fyrir því að fólk með snefils þekkingu á lögum semji nýju stjórnarskrána. Ekki nema að stjórnlagaþingið fá lögfræðinga til þess að semja hana fyrir sig. Í öðru lagi hefur aldrei, ekki einu sinni, verið sýnt fram á hvað er svona úrelt við stjórnarskránna. Nú þekki ég aðeins til hennar og ég skal fyrstur manna viðurkenna að hún er gömul en mörg ríkið styðjast við eldri stjórnarskrár. Er sú Bandaríska ekki síðan 1776??? Hún er því töluvert eldri heldur en stjórnarskráin okkar. En það er mjög margt í núverandi stjórnaskrá sem að er okkur, hinum almenna borgara mikils virði. Eignarréttarákvæði, mannréttindakaflinn svo eitthvað sé nefnt.

En aftur að lýðræðinu. Ég lýt á það sem skyldu okkar sem samfélags að reyna með öllum ráðum að tryggja að allir geti fengið að taka þátt í lýðræðinu. Þar sem að um fulltrúalýðræði er að ræða snýst lýðræðisþátttaka hins almenna borgara um það að kjósa í þau skipti sem að leitað er til fólksins. Þess vegna ber okkur skylda að hafa kosningarnar eins einfaldar og möguleiki er á. Af þessari ástæðu er ég mjög svo á móti persónukjöri. Persónukjör útilokar ákveðinn hluta kjósenda. Kjósendur eru líka gamalt fólk, treglæsir og þar fram eftir götunum. Hlutir eins og persónukjör og atkvæðaseðill á stærð við plaggat útilokar þetta fólk. Að koma með tillögur sem að í raun útilokar hluta kjósenda er mikill hroki. Og það snýr út úr lýðræðinu. Ef að allir treysta sér ekki til þess að kjósa af því að við erum búin að gera það svo flókið, þá eru við hin sömu búin að snúa út úr fyrir lýðræðinu. Við erum búin að koma lýðræðinu á villigötur.


mbl.is Kjörseðillinn yfir einn metra að lengd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu kominn tími til að Akranes og Borganes segi skilið við OR

Reykjavíkurborg hefur alltaf ráðskast með forstjórastöðu Orkuveitu Reykjavíkur eins og þeim sýnist. Þessi staða hefur löngum verið pólitískt bitbein í borgarpólitíkinni en aðrir hluthafar hafa aldrei haft nokkuð um skipan forstjórastöðu að segja. Reykjavíkurborg hefur alltaf litið á Orkuveitu Reykjavíkur sem eina af stofnunum Reykjavíkurborgar en ekki fyrirtæki sem að Reykjavíkurborg á meirihluta í. Þannig hafa hagsmunir minni eigenda alltaf verið virtir að vettugi og ekki nóg með það, minni hluthöfum hefur verið haldið utan við álitamál innan Orkuveitu Reykjavíkur. Þegar Rey málið stóð sem hæst voru það borgarfulltrúar Reykjavíkur sem að tókust á um álitaefnin en bæjarfulltrúar annarra sveitarfélaga sem að eiga hlut í Orkuveitu Reykjavíkur ekki kynnt málið, hvað þá að beðið væri um afstöðu þeirra til málsins.

Ástæðan fyrir því að Akranes og Borganes fóru inn í OR var til þess að lækka kostnað bæjarbúa við hitaveitu. En nú þegar að gríðarleg hækkun stendur fyrir dyrum, hækkun sem að er komin til vegna þess að hugsanlega hefur OR farið fram úr sér í fjárfestingum og uppbyggingu annarra á öðrum sviðum heldur en í hitaveitu þá spyr maður sig, til hvers eru þessi sveitarfélög enn hluthafar í OR? Af hverju ekki bara selja hlutina aftur og leyfa borgarfulltrúum Reykjavíkur að gera eins og þeir hafa alltaf gert, ráðskast með OR eins og þeim sýnist.


mbl.is Krefjast eigendafundar í OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er héraðsskólavæðingin af hinu góða?

Ég skil vel þau sjónarmið dreifbýlisstaða að vilja fá skóla heim í hérað. Það er súrt fyrir bæjarfélag sem þar sem að fólksfækkun á sér stað að þurfa að horfa á eftir ungu fólki í nám, vegna þess að hættan er alltaf sú að unga fólkið komi ekki til baka.

En er þetta heillavænleg þróun. Nú höfum við séð nýja framhaldsskóla skjóta upp kollinum á síðustu árum, þó aðallega á Vesturlandi. Á Vesturlandi eru t.d 37 kílómetrar á milli tveggja framhaldsskóla, Menntaskólans í Borgarfyrði og svo Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Svo er einn framhaldsskóli enn í Ólafsvík. Hins vegar hafa framlög til framhaldsskóla á Íslandi ekki aukist í samræmi við fjölgun framhaldsskóla. Þannig þurfa aðrir skólar að taka á sig skerðingu til þess að hægt sé að stofna nýjan. Nú borgar ríkið ákveðna upphæð með hverjum nemenda en á móti kemur að allir skólarnir hafa fasta kostnaðarliði óháð því hvort að nokkur nemandi komi í skólann. Skólinn þarf að eiga húsnæði, hann þarf að reka húsnæðið og þar fram eftir götunum.

Ef við tökum þennan nýja skóla til dæmis þá hefðu nemendurnir sem að hefja það nám að hafa annars farið í líklegast VMA eða MA. Þessir skólar tapa nemendum sem að þýðir að minni peningar til þess að borga fastann kostnað. Það hlýtur að leiða til þess að rekstur annarra skóla verður erfiðari.

Og svo sjáum við að rekstur nýju skólanna er ekki svo burðugur heldur. Menntaskóli Borgarfjarðar er t.d. á góðri leið með að setja sveitarfélagið Borgarnes á hausinn. Hluti af skýringunni þar er að vísu sú að þar var byggt í stíl ársins 2007.

Framundan er 6-9% niðurskurður í menntakerfi landsmanna. Því spyr maður sig hversu góð hugmynd það sé að fjölga skólunum, fjölga stofnunum sem að þurfa að borga fasta kostnaðarliði. Því þegar á öllu er botnin hvolft þá snýst hagkvæmni rekstrar, stofnanna sem annarra, um það að fá eins marga og hægt er til þess að borga niður fasta kostnaðinn. Ef eftir því sem að færri einingar (í þessu tilfelli nemendur) borga niður fasta kostnaðinn, þeim mun óhagkvæmari er reksturinn.


mbl.is Sjáum unga fólkið meira heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins en ein athugasemd...

Það er löngu kominn tími á vandaðri lagasetningu frá Alþingi. Þessu ber að fagna enda alltof mörg dæmi um mistök í lagasetningu.

En, mér finnst að það mætti alveg útfæra þetta víðtækar. Af hverju eiga bara stjórnarfrumvörp að fara í gegnum sérstakt gæðaeftirlit áður en frumvarpið er lagt fram á Alþingi? Ég vil að öll frumvörp, alveg sama hvort að það sé ráðherra úr ríkisstjórn Íslands, stjórnarþingmaður eða stjórnarandstöðuþingmaður sem flytur þau, fari í gegnum eins konar gæðaeftirlit áður en það kemur fyrir Alþingi. Mistök í lagasetningu og að það að menn sjái ekki afleiðingar frumvarpa frá Alþingi fyrr en eftirá eru ólíðandi og þess vegna ber Alþingi að sjá til þess að alltaf sé vandað til verka. Þess vegna finnst mér þessi skrifstofa eða þetta gæðaeftirlit eigi heima hjá Alþingi því að þar eru það er Alþingi sem að hefur löggjafarvaldið, ekki forsætisráðherra eða forsætisráðuneytið. Þessi skrifstofa ætti því að heyra undir forseta Alþingis því að það er forseti Alþingis sem að tekur samþykkt lagafrumvörp og leggur þau fyrir forseta Íslands til samþykkis.


mbl.is Meðferð stjórnarfrumvarpa endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei það má ekkert gera.

Það er lítill tilgangur að mæra landið okkar, það sé svo gjöfult af náttúruauðlindum, fallvötnum sem jarðhita ef að orkan er ekki notuð. Auðvitað verða menn að fara varlega í þeim efnum en málflutningur þeirra sem að segja alltaf bara nei og eru á móti öllu missir einfaldlega marks. Nú munu Vinstri Grænir að sjálfsögðu berjast hatramlega á móti þessum virkjunaráformum eins og öllum öðrum. Þeir berjast gegn HS Orku og innkomu Magma Energy þar, ekki vegna þess að aulindir séu á leiðinni úr landi, heldur vegna þess að HS Orka stendur að orkuöflun fyrir álver í Helguvík. En án þess að blikna stendur VG gegn allri uppbyggingu og öllum möguleikum á að skapa ný störf og það sem meira er nýjum tekjum fyrir hið opinbera. Maður hefði haldið að Skattmann myndi þiggja nýjar tekjur því að það myndi svo sannarlega auðvelda honum starfið. En það versta er að þessi fúll á móti stjórnmálaflokkur stendur í vegi fyrir öllu því sem að hugsjónir þeirra samþykja ekki, algjörlega án þess að koma með einhverja aðra möguleika. Það væri auðveldara að ræða við þá um stóriðjumál ef að þeir kæmu með raunhæfa valkosti sem að gætu haft svipuð eða sömu áhrif og stóriðjan hefur. En nei þeir leyfa sér að standa á móti öllu eins og þrjóskur lítill krakki sem að er í uppreisn gegn foreldrum sínum. Þess konar stjórnmálaflokkur er ekki hæfur í ríkisstjórn.


mbl.is Vilja ræða um Norðlingaölduveitu í iðnaðarnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhann Pétur Pétursson
Jóhann Pétur Pétursson

með skoðanir á um það bil öllu

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband