Nýja Ísland?

Nýja Ísland sem að búsáhaldabyltingin kallaði eftir hefur aldrei verið jafn fjarlægt markmið. Jafnvel fjarlægara heldur en þegar vondi Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Upplýsingarnar skila sér ekki til þingmanna, hvað þá til almennings og ákvarðanir eru enn teknar í reykfylltum bakherbergjum. Hinir nýju pólitíkusar virðast ekki betri en hinir gömlu.

Enda við hverju bjuggust menn? Jú vissulega er Vinstri Hreyfingin Grænt framboð og Samfylkingin vera ungir flokkar en hverjir eru þar fremstir í flokki? Steingrímur J. Sigfússon er alls enginn nýgræðingur í stjórnmálum. Hann hefur þá sérstöðu meðal þingmanna að bæði tímar og þjóðfélag hafa breyst mikið síðan að hann steig fyrstur á þing, en hann ekki. Hann er sennilega eini þingmaðurinn sem að hefur flutt ræðu á Alþingi sem að fjallaði um það að Leifsstöð væri of stór. Það væri gaman að vita hvað honum finnst um Leifsstöð núna. En burtséð frá því þá er hann einn af þessum skítapólitíkusum þar sem að pólítískur frami fæst með samningum um greiða gegn greiða og að ata pólitíska andstæðinga eins miklu auri og hægt er. Það er Jóhanna líka, Össur, Ögmundur... Öll eru þau frá gamla tíma stjórnmálanna, löngu fyrir daga búsáhaldabyltingarinnar.

Og svo virðist sem byltingarsinnar hafi einfaldlega verið tamdir. Lilja Mósesdóttir var einn byltingarsinna, nú þingmaður VG. Þar eru tengslin VG við byltinguna skýr. Sjálfstæðismenn hafa lengi haldið fram að VG hafi staðið að og stutt byltinguna, til þess að koma sér til valda. Þegar einn byltingarsinna tekur síðan sæti fyrir VG á þingi þá er erfitt að sjá ekki tengslin. Þau eru í besta falli óljós en engu að síður til staðar. Jú vissulega er hún hluti af órólegu deildinni innan VG en sú deild hefur ekki séð ástæðu til þess að finna að feluleiknum og leyndinni og því hvernig menn innan ríkisstjórnar Íslands reyna stöðugt að firra sig ábyrgð.

Nýja Ísland mun koma en aðeins ef að öllum er hleypt að því. Það er mjög algengt viðkvæði þegar þessi ríkisstjórn er gagnrýnd og afsagnar krafist að þá hrökkva menn í kút og spyrja, á að hleypa hrunflokkunum að aftur. Það er einmitt lóðið, það á að hleypa öllum að uppbyggingu og myndunar nýja Íslands. Öðru vísi verður ekkert nýtt Ísland til. Spyrjum ekki hver gerði hvað og hvers vegna, hver átti sök á hverju og hver ekki. Það er vandamál fortíðarinnar. Það er alveg sama hvað við gerum við fortíðina, vandamál framtíðarinnar standa óleist. Fortíðin er jú til að læra af henni en við megum ekki láta hana draga okkur niður. Vandamál framtíðarinnar verðum við að leysa í sameiningu, með þáttöku allra flokka, allra sjónarmiða og allrar þjóðarinnar. Ef að uppbygging framtíðar og uppbygging nýja Íslands verður einkamál vinstri manna í landinu... þá verður engin framtíð og ekkert nýtt Ísland til.


mbl.is Lét Gylfi Steingrím vita?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hroki???

Ég held að þingmaðurinn ætti að hugsa orð sín betur. Þó ég vilji ekki dæma fólk þá finnst mér þetta dæmalaus hroki í Atla Gíslasyni. Ég skil vel að honum sé umhugað um íslenskar auðlindir en hann er ekki einn um það. Íslenskar auðlindir eru ekki sérhagsmunamál Vinstri Grænna. Deilan snýst um hvort að auðlindir hafi verið að skipta um hendur, hvort að útlendingar væru að koma höndum yfir vatns og jarðvarmaréttindi.

HS Orka átti engar auðlindir en leigði þér gegn gjaldi sem að rann til þeirra sem að eiga sannarlega auðlindirnar sem að eru sveitarfélögin á Reykjanesi. Gjaldið má kalla auðlindagjald. Þannig má finna klárlega samnefnara við það fyrirkomulag sem að Vinstri Grænir vilja sjálfir koma á varðandi fiskveiðar. HS Orka er þá í hlutverki útgerðarmanna, auðlindin í iðrum jarðar er þá hægt að líkja við fiskinn í sjónum og hið opinbera fengi auðlindagjaldið. En þetta sama fyrirkomulag er þeim ekki að skapi þegar kemur að auðlindum í formi jarðhita og vatnsorku. Þá á að fara kommúnistaleiðina á þetta, bara þjóðnýta fyrirtækin. Maður spyr sig hvort að Vinstri Grænir ætli síðar að fara sömu leið í sjávarútvegi, bara ríkið eigi og reki allt. Slík hagfræði og slíkir stjórnarhættir hafa áður mistekist og það er engin ástæða til þess að ætla annað en að hún mistakist hjá Vinstri Grænum líka.

Svo er annað að HS Orka ætlaði að standa fyrir mikilli uppbyggingu á Reykjanessvæðinu. Þá uppbyggingu og þau störf sem að við það skapast getur ríkið ekki séð fyrir, hætti HS Orka við allt saman. Orðin "farið hefur fé betra" má alveg eins senda til íbúa Reykjaness sem að mér finnst eigi ekki skilið slíka kveðju frá þingmanninum Atla Gíslasyni. Þess vegna finnst mér þetta mikill hroki af hans hálfu í garð kjósenda sinna, kjósenda sem að hann situr í umboði fyrir.

Í þriðja lagi þá þurfum við erlenda fjárfestingu. Vitanlega þurfum við að vanda valið, hverjir fá að fjárfesta og í hverju. En slæmt orð fyrirtækja eins og Magma Energy getur hins vegar skemmt fyrir okkur. Ef það er eitthvað sem að við þurfum ekki þá er það slæmt umtal fjárfesta. Þess vegna er mjög mikilvægt, alveg sama hver niðurstaða málsins verður, hvort að Magma Energy fái að fjárfesta í HS Orku eða ekki að niðurstaðan sé í sem mestri sátt við Magma Energy sem og aðra fjárfesta. Stundum er betra að brjóta odd af oflæti sínu, spjátrungshætti og hroka og hafa þá sem að við þurfum klárlega á að halda góða. Það er eitthvað sem að þingmaðurinn, Atli Gíslason sem og aðrir Vinstri Grænir hugsa alvarlega um.


mbl.is „Farið hefur fé betra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annar hvor þeirra, veit ekkert um hvað hann er að tala.

Hvað hét frumvarpið aftur sem að fjalla um Icesave málið? Frumvarpið sem að var flutt og samþykkt síðasta sumar af Alþingi, hafnað af Bretum og Hollendingum og flutt aftur í töluvert breyttri mynd síðasta vetur sem að endaði með harmleik vinstri manna. Vinstri sinnaði forsetinn hafnaði frumvarpinu.

Það frumvarp hét og heitir ef ég man rétt lög um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbanka hf í Hollandi og Bretlandi. Tilgangur frumvarpsins er sá að ríkissjóður gangist í ábyrgðir fyrir íslenska Innistæðusjóðsins til þess að standa straum af greiðslum vega Icesave reikninganna. Nú legg ég áherslu á orðið ríkisábyrgð. En nú kemur maður sem að fulltrúi í framkvæmdastjórn ESB og segir að ekki sé ríkisábyrgð á innistæðusjóðum. Innistæðusjóðir einfaldlega borgi það sem að þeir geti borgað og þar við situr. Rest eigi aldrei að falla á viðkomandi þjóðríki. En að sögn Steingríms J. Sigfússonar þá breytir þetta engu. Viðræður um ríkisábyrgð við Hollendinga og Breta haldi áfram á fullu.

Annað hvor þessara manna veit ekkert hvað hann er að tala um og nema að ég hafi misskilið máli  svakalega þá hallast ég að því að sá maður sé Steingrímur Jóhann Sigfússon.


mbl.is Staða Íslands í Icesave-deilu hefur styrkst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð ríkisstjórnar vantraust á störf nefndarinnar.

Það blasir við að ríkisstjórn sem að ætlar að setja niðurstöðu nefndar í sérstaka rannsókn hefur ekki mikla trú á störfum þeirrar nefndar. Nefndinni er því varla stætt á að vinna undir ríkisstjórn sem að treystir henni ekki. Það hlýtur því að verða fyrsta verk iðnaðarráðherra að skipa nýja nefnd, nefnd sem að getur mögulega notið trausts stjórnvalda. Eða er um raunverulegt vantraust að ræða?

Vinstri Grænir hafa tekið afstöðu í þessu máli það er þeir vilja ekki sjá þessi kaup. Samfylkingin hafði hins vegar ekki neitt við þessi kaup að athuga fyrr en að órólega deildin í VG fór að hóta því í fjölmiðlum að slíta stjórnarstamstarfinu. Þá var fundin sú málamiðlun milli þessara flokka, nú þegar stjórnarsamstarfið var í hættu að gera allt málið tortryggilegt og setja það í sérstaka rannsókn.

En hvað ef sú rannsókn leiðir ekkert tortryggilegt í ljós, heldur þvert á móti eyðir allri tortryggni í garð einkavæðingar HS Orku og kaup Magma Energy? Ætlar órólega deildin að slíta stjórnarsamstarfinu vegna kaup á einu orkufyrirtæki sem að þar að auki leigir auðlindirnar, á þær ekki? Það ber að hafa í huga að stærsta orkufyrirtækið, Landsvirkjun er enn í eigu þjóðarinnar og eftir því sem ég best veit hefur fjármálaráðherra ekki hug á að selja Landsvirkjun. Ef að það stæði til þá myndi ég skilja vel afstöðu órólegu deildarinnar.

Ég held að nefnd um erlenda fjárfestingu séu hafðir að leiksoppum í pólitískum sandkassaleik milli VG og Samfylkingar. En þetta mál sýnir best vandræðaganginn í þessari blessuðu ríkisstjórn.


mbl.is Telur Magma-niðurstöðu rétta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggðastofnun fyrst til þess að verða fyrir höggi.

Grunnurinn að svokallaðir fyrningarleið sem að Samfylkingin og Vinstri Grænir hafa boðað er upptaka aflaheimilda. Fylgismenn þeirrar leiðar einblína á sanngirnissjónarmið varðandi sjávarútveginn. Það er bæði rétt og eðlilegt að nýting auðlinda sjávar sé á sem sanngjarnastan hátt. En eins og öll mál er til önnur hlið og önnur sjónarmið. Þá hlið hafa LÍÚ og fleiri hagsmunaðilar í sjávarútvegi reynt að kynna en það er efnahagshliðin, áhrif upptöku aflaheimilda á sjávarútvegsfyrirtækin.

Nú er Byggðastofnun ekki sjávarútvegsfyrirtæki en lánveitingar hennar setur hana í sömu stöðu og sjávarútvegsfyrirtækin. Þetta er ekki fyrsta staðfestingin á því að hvað fylgir ef upptöku aflaheimilda verður beitt gegn sjávarútvegsfyrirtækjunum. Áður hefur Landsbankinn varað við áhrifum á bankann af sömu ástæðu og Byggðastofnun varar við áhrifunum á frjálsum rækjuveiðum, og skýrsla Price Water House Coopervar líka mjög afdráttarlaus varðandi áhrif á sjávarútvegsfyrirtæki ef að fyrningarleiðin yrði farin.

Seinni hluti þessarar hugmyndar um fyrningarleið er svo að það skapaðist einhvers konar ríkisleigumarkaður þar sem að ríkið leigði þeim sem að vildu nýta auðlindir hafsins kvóta til eins árs í senn. Leigan yrði þá gegn einhverju gjaldi sem að færi þá í ríkiskassann. Í þessu samhengi vil ég nefna að ríkið hefur fyrir tekjur af sjávarútvegi, bæði launatekjur en ekki síður fjármagnstekjur. Það er ekki eins og ríkið og þar með þjóðin njóti einskis af sókn í auðlindir hafsins. En nú getum við aðeins ímyndað okkur hvar þessi kostnaður kæmi niður, þessi leigukostnaður vegna leigu á aflaheimildum. Margir sjómenn óttast að kostnaðurinn skiptist einfaldlega milli útgerðar og sjómanna, alveg eins og allur annar kostnaður sem að fellur aukalega á útgerðina, sjómenn fá alltaf sinn skammt af þeim kostnaði.

Einhvers staðar liggur lausnin að sáttum um nýtingu auðlinda hafsins. En það verður að vera tryggt að útgerðin og þeir sem að starfa hjá útgerð og vinnslu verði ekki fyrir skaða af breytingunum.


mbl.is Talsvert fé bundið í rækjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er glæpurinn??? (ómaklega vegið að Steinunni Valdísi???)

Styrkveitingar til stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna eru ekki nýjar af nálinni. Það er dýrt, meira að segja fokdýrt að standa í stjórnmálabaráttu og það er ekki sanngjarnt af neinum stjórnmálamanni að ætlast til þess að fjölskylda,vinir eða ættingjar standi straum af hugsjón eins einstaklings. Við viljum að sjónarmið sem flestra nái inn á borð alþingis og því þarf alþingi að samanstanda af fólki sem að sé þverskurður samfélagsins. Þar þurfa að vera fulltrúar hinna ríku og þeirra fátæku, fulltrúar fámennisins og fjölmennisins.

Það kostar peninga að ná til fólksins og hvort sem að við viljum það eða ekki þá eru peningar ráðandi vald í okkar samfélagi. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf verða.  Alltaf verða til aðilar sem að telja að þeir geti keypt sér áhrif. Stjórnmálamenn verða fyrir áhrifum víða að. Þeir verða fyrir áhrifum á stjórnmálafundum, fjölmiðlum, í samkvæmum og jafnvel bara við matarborðið heima hjá sér. Hluti þessara áhrifa geta verið menn eða fyrirtæki sem að vilja kaupa stjórnmálamennina. Við verðum að treysta stjórnmálamönnunum til þess að gera það sem þeir telja að sé rétt. Að stjórnmálamaður sem að fær styrki sé ekki að selja skoðanir sínar eða atkvæði. Það eitt og sér að þiggja styrki má ekki gera fólk vanhæft. Þá erum við nefninlega að útiloka ákveðinn hluta hóps frá stjórnmálabaráttu.

Steinunn Valdís tók við styrkjum, Guðlaugur Þórðarson líka og fjölmargir fleiri. En enginn getur bent mér á mál sem að kom til kasta Alþingis þar sem að þingmennirnir beittu atkvæði sínu í þágu einhvers sem að styrkti þá. Þar væri glæpurinn kominn. Enginn hefur bent á að fyrirtæki eða einstaklingur hafi raunverulega keypt tiltekna niðurstöðu Alþingis. Nei hefur verið bent á styrkveitinguna sem glæp. Það er hún ekki. Styrkveiting til stjórnmálamanna er heimil, upp að reyndar ákveðnu marki.

Og svo annað, var ómaklega vegið að Steinunni Valdísi??? Er það eðlilegt að gagnrýni á störf eða hegðu stjórnmálamanna þröngvi sér alla leið inn á heimili þeirra? Er eðlilegt að gagnrýni á störf eða hegðun stjórnmálamanna þröngvi sér leið inn í sálir barna þeirra? Mitt svar er nei. Það er svo langt frá því að vera eðlilegt. Er Austurvöllur ekki nógu stór? Þar starfa þingmennirnir, hvers vegna ekki að fá að rabba við þá fyrir utan Alþingishúsið þar sem að þeir starfa í stað þess að sitja um þá á heimilum fólks?

Ég er frjálslyndur hægrimaður, þið megið geta ykkur til um hvaða flokk ég styð en Steinunn Valdís hlýtur minn stuðning í þessu máli. Þarna er vegið að hæfum stjórnmálamanni sem að mínu viti staðið fjarri hugtökum eins og spillingu. Ég hef aldrei þekkt hana af öðru en heiðarleika og ég fordæmi það fordæmi sem að verið er að búa til með þessari afsögn. Aðeins þeir efnameiri og ríku eiga að taka sæti á Alþingi, það er ljóst.


mbl.is Steinunn Valdís segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjör hundalógík

Setjum þetta í annað samhengi. Nú er ég tekinn fyrir of hraðann akstur. Ég fæ á mig ákæru vegna þessa meinta brots en ég mótmæli ákærunni á þeirri forsendu að fólk hafi áður verð tekið fyrir of hraðann akstur án þess að lögreglan hafi ákært í málinu. Ef að dómari tæki það gilt þá gæti lögreglan aldrei kært aftur fyrir hraðakstur.

Hvernig litist fólki á sömu lógík ef að tekið yrði fyrir bankahrunið og öll þau meintu brot sem að þar virðast hafa verið framin? Jú ef að sérstakur saksóknari telur sig ekki geta ákært einn bankastjóra/stjórnanda eða útrásarvíking, eigum við þá að sleppa öllum? 

Í stað þess að spyrja hvers vegna þetta fólk er ákært þá ætti spurningin að snúast um hvers vegna í ósköpunum sluppu hinir?  Ætlar Björn Valur Gíslason að segja að lögreglan eigi aldrei að ákæra fyrir að virða ekki friðhelgi Alþingis eða að brotist sé inn í Alþing og þingvörður yfirbugaður? 

Ég er ekki að dæma í málinu og ég er ekki að segja að neinn sé sekur eða saklaus en ef að lögreglan þarf að yfirbuga fólk til þess að það sé hægt að hafa starfsfrið á Alþingi þá þarf að ákæra í málinu og fá skorið um sekt eða sýknu. 

Áður en fólk fer að hrauna yfir mig og lögregluríki eða þaðan af verra bull þá bið ég fólk að hugsa um eitt, hvað er það sem að gerir samfélagið okkar að samfélagi? Hvað bindur öll okkar samskipti innbyrðis? Þegar ég keyri þá verða aðrir bílstjórar að treysta því að ég fari eftir lögum og reglum sem að gilda um umferð. Þegar ég fer á skemmtistað niður í bæ þá treysta allar stúlkur á staðnum þeirra rétt til þess að þær séu ekki áreittar af mér. Það sem bindur okkur, bláókunnugt fólk, saman í þessu samfélagi eru lögin. Lögin verða alltaf að gilda. Svo virðist sem að þetta fólk, mótmælendur, annað hvort telji sig ekki gera neitt en samt endar það öskrandi upp á þingpöllum, yfirbugar þingverði og lögreglan telur sig þurfa að fjarlægja fólkið, eða þá að því finnst ekki það þurfa að fara eftir þessum lögum af því að það er að mótmæla. Mitt svar er að það þarf að skera úr um það, hvað má og hvað má ekki þegar fólk er að mótmæla. Það þarf að koma skýrt fram að mótmælendur, alveg eins og allir aðrir, eru bundnir að lögum.


mbl.is Vill að ákæra verði dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segjum lögbrjótum stríð á hendur.

Lögbrot er lögbrot alveg sama í hvaða tilgangi það er framið. Það að trufla Alþingi að störfum er lögbrot, það að trufla þinghald í dómstólum er lögbrot og það að nota banka sem eigin sparibauka getur líka flokkast undir lögbrot. Mér er sama í hvaða tilgangi lögbrotið er framið, hvort sem að að er til þess að koma fram einhverjum skilaboðum eða til þess að hagnast þá á fólk ekki að komast upp með lögbrot.

En svokallaðir Aktívistar í ísleskum stjórnmálum telja sig yfir lögin hafin vegna þess að  þau hafi einhvern málstað. Gegn þess konar þankagangi verður samfélagið að berjast af alefli vegna þess að hann grefur undan okkar samfélagi sem réttarríki. Réttarríkið er hafið yfir aktívistanna, bankastjóranna, útrásarvíkinganna, stjórnmálamennina, dópsalanna og svo framvegis. Allir eiga að hlíta lögum óháð því í hvaða tilgangi þau eru framin og allir, án undantekninga, eiga að hljóta réttláta refsingu. 

Það sem að er mest óþolandi er að jafn virtur lögmaður og Ragnar Aðalsteinsson skuli leggjast svo lágt að ganga í lið með þeim sem að telja sig hafna yfir lögin. Ekki aðeins grefur hann undan sjálfum sér sem lögmanni heldur undan dómstólum í leiðinni vegna þess að lögmenn eru jú hluti af réttarríkinu. 


mbl.is „Þinghald undir lögreglustjórn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk hagsmunasamtök hverra?

Ekki alls fyrir löngu var samþykkt frumvarp frá Alþingi, svokallað skötuselsfrumvarp. Að auki hafa núverandi stjórnaflokkar svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi á stefnuskránni. Hvoru tveggja það er samþykkt frumvarpsins og fyrningarleiðin eru mál sem að eru rædd og útkljáð á hinum pólitíska vettvangi. Í báðum þessum málum er harkalega vegið að hagsmunum útgerðarmanna sem að jú eru hluti af samtökum atvinnulífsins.

Vinstri grænir eða ráðherrar þeirra hafa sett sig hvað eftir annað gegn uppbyggingu álvers í Helguvík og á Bakka. Þetta er mál sem að er mikið hagsmuna mál ekki bara atvinnurekenda heldur einnig launafólks á þessum svæðum. Vinstri grænir eru á móti. Punktur. Það er þeirra prinsipp mál að þessi iðnaður veiti ekki fleirum atvinnu heldur en nú er orðið og rembast eins og rjúpan við staurinn að vinna rök fyrir sinni afstöðu. Sannleikurinn er sá að þetta er þeirra hugsjónamál og hugsjónir eru ekki alltaf háð rökhyggju.

Að lokum er það uppbygging einkarekins fyrirtækis sem að vill hefja rekstur á óvopnuðum herþotum á Keflavíkurflugvelli. Þar koma prinsipp mál gömlu herstöðvarandstæðinganna. Með því að vera á móti þessari uppbyggingu þá telja Vinstri Grænir sig vera að koma í veg fyrir uppbyggingu þessa fyrirtækis. Því fer fjarri. Það eina sem ávinnst með þrjósku, og þrákelni þeirra er að störfin sem að skapast verða ekki til á Íslandi heldur einhvers staðar annars staðar. Þessu fyrirtæki er nefninlega alveg skítsama um Vinstri Græna og afstöðu þeirra. Þeir ætla ekki að sitja einhvern siðferðisfyrirlestur frá VG. Ef þeir byggja ekki upp á Íslandi þá byggja þeir bara upp einhvers staðar annars staðar.

Vinstri Grænir hafa harkalega vegið að hagsmunum marga þeirra sem að standa að Samtökum Atvinnulífsins. Þessi mál hafa verið rædd á hinum pólitíska vettvangi og því er ekki ósanngjarnt að segja að Samtök Atvinnulífsins séu pólitísk hagsmunasamtök, sinna umbjóðenda, gegn Vinstri Grænum öðrum fremur. Það er eðli samtaka eins og SA að hugsa um hag umbjóðenda sinna og þegar að Vinstri Grænir vega gegn þeirra umbjóðendum þá snýst SA til varnar. Ef Steingrímur J. vill stríð þá fær hann stríð.


mbl.is Segja SI pólitísk hagsmunasamtök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra hlýtur að endurskoða afstöðu sína.

Ég velti því fyrir mér hvernig ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs geti rökstutt það að á meðan heildarkvóti í þorski sé ekki aukinn þá eigi að sjá eftir auknum hluta þorskkvótans til þessara svokölluðu strandveiða. Það sem að við vitum eftir ársreynslu af strandveiðum er tvennt. Þær eru með öllu stjórnlausar enda var aldrei neitt tilefni til þess að halda annað. Stór hluti þeirra sem að tóku þátt í strandveiðum brutu þær tiltölulega rúmu reglur sem að um þær giltu. Einnig var hráefnið sem að þessir bátar komu með að landi í lélegum gæðum. Hvorug staðreyndin gefur tilefni til þess að hygla útgerð þessara báta umfram þá smábáta eða stærri skip sem að stunda útgerð á grundvelli kvóta. Þar fyrir utan er það staðreynd að þau skip sem að skila hráefni í hvað mestum gæðum eru frystitogarar. Þar liggja mestu verðmætin, þar eru mestu gæðin og þar er mest arðsemi bæði fyrir útgerðina, sjómennina og síðast en ekki síst ríkið.

Ég kann illa við þetta fikt sem að ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs er að gera með sjávarútveginn. Sáttanefnd um sjávarútveginn er til en því miður var það fljótlega ljóst að henni var aðeins ætlað það hlutverk að koma fyrningarleið á laggirnar. Ráðherrann, Jón Bjarnason gat heldur ekki staðist freistinguna með því að fikta aðeins þegar kom að ósköp einföldum hlut, að úthluta skötuselskvóta. Það gerði hann svo hressilega að það er ekki nokkur leið að kalla sókn á skötusel sjálfbæra nýtingu. Tvöföld ráðgjöf Hafró??? Maður hlýtur að spyrja sig hvernig svona embættisfærslur hafi áhrif á ímynd íslenskra sjávarafurða erlendis þar sem við hælum okkur af því að vera að nýta sjálfbæra auðlind þegar við ætlum að sækja svo stíft sem raun ber vitni. 

Við verðum að ná sátt um sjávarútveginn, hjá því verður ekki komist. En það verður ekki gert með því einhliða fikti Vinstri Grænna, grafa örlítið undan núverandi kerfi hér, aðeins meira þar. Það krefst heilstæðrar sáttar milli aðila sjávarútvegsins, útgerðar bæði þeirra stærri og þeirra sem minni eru, samtaka sjómanna, samtaka landverkafólks og stjórnmálamanna. Til þess að raunverulegur grundvöllur skapist til sáttar verða allir þessir aðilar að vera við borðið og raunverulegur sáttavilji verður að vera við hendi. Ég get ekki annað en varist því að hugsa hvort Vinstri Grænir vilji sættir nokkur staðar. Alltaf þegar VG getur valið milli leiðar illdeilna eða sátta virðist sem að þeirra "prinsipp" krefjist þess að þeir velji leið illdeilna. Það er ljóst að með þannig flokk í stjórn verða engar sættir. En vilji VG stríð, þá geta þeir fengið stríð, ég held að samtök útgerða, sjómanna og landverkafólks séu alveg tilbúin.


mbl.is LÍÚ: Niðurstaða Hafró vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhann Pétur Pétursson
Jóhann Pétur Pétursson

með skoðanir á um það bil öllu

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband