Setjum við frelsið í fangelsi?

Það er eðlileg framvinda mála hjá fangelsismálastofnun að sleppa föngum lausum eftir að þeir hafa greitt sína skuld við þjóðfélagið. Markmiðið með fangelsun fanga er að hann læri af mistökum sínum og komi út sem betri maður, góður og gildur þegn í okkar samfélagi. Og samfélagið tekur honum sem slíkum. En það gerist mjög reglulega að fyrrverandi fangar brjóta aftur af sér, og lenda þá aftur í fangelsi. Fangelsismálastofnun getur gert sitt besta til þess að hjálpa föngunum að fóta sig í lífinu á nýjan leik en þegar út er komið þá er það fanganna sjálfra að ákveða hvernig þeir meðhöndla frelsið. En ef að einhverjir fangar bregðast traustinu ætlum við þá að alhæfa á þá leið að allir fangar komi til með að bregðast traustinu? Ætlum við þá að hætta að sleppa föngum lausum? Erum við þá ekki búin að setja frelsið í fangelsi?

 Þegar bankarnir voru einkavæddir komust þeir í hendur á eigendum og stjórnendum sem á endanum brugðust traustinu. Nú ætla ég að láta algjörlega liggja á milli hluta hvort að þeir hafi brotið lög og rétt, enda koma lögbrot frjálshyggjunni ekkert við. En fyrirtækin, bankarnir sem að mynduðu bankakerfið okkar fóru í þrot og þannig brugðust þeir traustinu. En er VG að halda því þá fram að úr því að það eigi að setja frelsið í fangelsi að þá séu engir til sem að er treystandi fyrir bankakerfinu með því regluverki sem að var við lýði? Af því að sumum er ekki treystandi að þá er engum ekki treystand? 

Frjálshyggjan hefur sína galla. Opið regluverk frjálshyggjunar opnaði mönnum leið að miklum fjármunum og líka mikilli áhættu. En þeir tóku ekki aðeins áhættu fyrir sig og sín fyrirtæki heldur tefldu þeir afkomu heillrar þjóðar í hættu. En hún hefur líka sína kosti. Frjálshyggjan auðveldar mönnum viðskipti og var, þó það væri ekki nema um stundarsakir mjög arðvænleg. 

Þjóðin hefur orðið fyrir gríðarlegum skaða, allt traust er farið til fjandans og þjóðin krefst breytinga. En hvað sem við gerum og hver sem við stefnum, föllum ekki í þá gryfju að setja frelsið í fangelsi, einns og Sóley Tómasdóttir og flokksfélagar hennar vilja. Þó svo að sumum sé ekki treystandi þá er ekki ástæða til þess að vantreysta öllum. Það er til fólk í fjármálageira, bankageira og sem rekur fyrirtæki sem að er traustsins vert. Við þurfum bara að finna leið til þess að finna þetta fólk og virkja það til góðra verka.


mbl.is VG í uppgjöri við frjálshyggju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara fjármálaráðherra heldur þjóðin öll.

Ég held að fjármálaráðherra sé síðasti maðurinn til þess að þurfa beinlínis að taka einhver orð til baka. Hins vegar hefur hann verið sá maður sem að hefur keyrt áfram stanslausann áróður gegn ákveðnum þjóðfélagshópum án þess að þurfa að sanna eða staðfesta orð sín að neinu leiti. Það virðist sem svo að fólk sem að starfaði í bankageira, rak fyrirtæki eða starfaði í fjármálageira sé orðin opinber skotmörk á Íslandi. Um þetta fólk má tala hvernig sem er, það virðist mega kalla þetta fólk þjófa, glæpamenn og óþjóðalýð upp til hópa án þess að þurfa að hafa eitthvað fyrir orðum sínum.

Hér á ég að sjálfsögðu við dómstól götunnar og þessi dómstóll hefur verið iðinn allt síðan að hrunið varð. Þau vísdóms orð að einhver skuli vera saklaus uns sekt hans er sönnuð skipta þennan dómstól engu máli og bara ef að þú rakst fyrirtæki, vannst í banka eða starfaðir hjá fjármálafyrirtæki, þá ertu eðli málsins samkvæmt glæpamaður og ef að ekki er hægt að dæma þig sekann þá eru lögin eða regluverkið svokallaða gallað. Og þessa umræðu hefur ríkisstjórnin kynnt allann tímann meðan að hún hefur verið við völd. Og fyrir dómstóli götunnar fær enginn að verja hendur sýnar, enginn fær að sýna fram á að hann eigi sér málsbætur eða hafi alls ekkert gert sem að brjóti í bága við landslög. Dómstóli götunnar er líka alveg skítsama um staðreyndir, ef að staðreyndir skortir þá bara býr hann þær til. Og dómstóll götunnar er sérstakur að því leyti að hann er bæði saksóknari, dómari og böðull. Þú stendur nakinn og berskjaldaður frammi fyrir dómstóli götunnar og verjendur eru ekki leyfðir. Þú getur ekkert sagt þér til varnar og verður bara að taka hverri þeirri refsingu sem að dómstóll götunnar getur dæmt þig í.

En í því er fólgin það eina sem að getur huggað þá sem að lenda í dómstóli götunnar. Hann getur ekki dæmt þig í fangelsi eða til fjársekta heldur sviptir hann þig aðeins ærunni og mannorðinu. Það er þó huggun harmi gegn að dómstóll sem að styðst hvorki við lög né stjórnarskrá skuli aðeins geta beitt þessu úrræði. 

Hér er ég ekki að verja Jón Ásgeir Jóhannesson en ég dæmi hann ekki sekann heldur. Það getur í mínum huga vel verið að fjöldi manns hafi gerst brotlegt við lög fyrir og í aðdraganda kreppunnar. Hins vegar finnst mér það líka vel hugsanlegt að fjöldi manns hafi ekki gerst brotlegt við lög þó svo það hafi verið hátt sett innan bankakerfisins, fyrirtækja eða fjármálafyrirtækja. Þetta fólk hefur hins vegar allt verið dæmt af dómstóli götunnar. Ég ætla ekki að verja Jón Ásger né mæra hann en tökum þessa beiðni til fjármálaráðherra til okkar allra og lokum dómstól götunnar inni, varanlega. Hann styðst hvort eð er hvorki við stjórnarskrá né lög.


mbl.is Bakkar ekki með nein ummæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers, hann er ekki pappírsins virði.

Blekið á stöðuleikasáttmálanum svokallaða var ekki þornað þegar að ríkisstjórn Íslands byrjaði að grafa undan honum. Í fyrsta lagi fer návæmlega ekkert fyrir stóriðjuframkvæmdunum sem að var lofað en í staðinn hefur ríkisstjórn Íslands gert allt til þess að leggja í stein í götu þeirra. Það er heldur ekki skrýtið því að hluti ríkisstjórnar Íslands telur sig algjörlega óskuldbundna þessum samningi. Það stendur líka í stöðuleikasáttmálanum að ekki verði gerðar neinar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu en sáttanefnd skipuð til þess að leiða það deilumál til farsællar niðurstöðu. Samt sem áður koma Vinstri Grænir fram með sínar hugsjónir og gera breytingar sem að í besta falli grafa undan núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Þetta loforð var til þess gert að Samtök Atvinnulífsins kæmu að sáttmálanum, MEÐ LÍÚ innaborðs. Stöðugleikasáttmálinn átti líka að tryggja hér atvinnu, lægri verðbólgu og stöðugt gengi. Það er aðeins ein ástæða fyrir því að hér er stöðugt gengi, því er handstýrt úr Seðlabanka Íslands með gjaldeyrishöftum. Verðbólgan er enn uppávið en að vísu er spáð lækkun seinna á árinu EF að það verður farið út í stóryðjuframkvæmdir eða aðrar sambærilegar framkvæmdir. Sambærileg framkvæmd gæti til dæmis verið uppbygging flugfélagsins sem að leigir út vélar til heræfinga en enn koma Vinstri Grænir með sínar hugsjónir og koma í veg fyrir það.

Stöðugleikasáttmálinn sem að var líkt við þjóðarsáttarsamningana á sínum tíma hélt aldrei. Fyrir utan brot ríkisstjórnar Íslands á sáttmálanum þá hafði hann aldrei þau áhrif sem að honum var ætlað. Það eina sem að gerðist ef að SA kæmi aftur að samningnum væri hann væri alveg jafn áhrifalaus og hann var í upphafi. Það væri miklu frekar að gera nýjan stöðugleikasáttmála, sáttmála sem að kveði á um það að ríkisstjórn Íslands standi við sín heit og að láta hvern og einn ráðherra Vinstri Grænna skrifa undir sáttmálann þannig að ríkisstjórnin öll standi að sáttmálanum. Það virðist sem að ef að Jóhanna skrifi undir eitthvað, þá standi aðrir ráðherrar með henni og ríkisstjórninni en það virðist ekki það sama gilda um ráðherra VG. Þeim er skítsama þó svo að Steingrímur skrifi undir eitthvað, þau telja sig algjörlega óbundin af því. 

Það sem að Jóhanna er að fara fram á er annað hvort af tvennu, annað hvort kemur SA að stöðugleikasáttmálanum aftur þrátt fyrir brotin fyrirheit ríkisstjórnar Íslands en þá án LÍÚ. LÍÚ slítur þá endanlega samstarfi og sambandi við ríkisstjórnina sem að endar með að flotinn kemur í land og verður látinn liggja bundinni við bryggju. Þetta er ekki farsæl leið. Hinn möguleikinn er að SA hafni því með öllu að koma aftur að stöðugleikasáttmálanum. 

Í hvert skipti sem að ríkisstjórn Íslands getur valið milli leið sátta eða leið átaka þá velur ríkisstjórnin átakaleiðina. Hún hefði getað látið umsókn að ESB bíða þar til kreppan væri yfirstaðin, en nei nú á að kljúfa þjóðina í herðar niður vegna deilna um ESB. Hún hefði getað vísað þessu ómerkilega skötuselsfrumvarpi í sáttanefnd og beðið með að leggja það fyrir þingið og fá það samþykkt en nei aftur velur ríkisstjórn Íslands að fara átakaleiðina og lýsa yfir stríði við SA og LÍÚ. Og ég óttast það að vilji ríkisstjórn Íslands stríð við þessa aðila, þá fái hún stríð. Hvernig væri að skipa stjórn sátta en ekki átaka. Pólitísk átök hafa haldið þjóðinni í heljargreipum síðan fyrir hrun. Pólitíkusanir sjálfir hafa ekki síður brugðist okkur en ríkisstjórn Íslands. Hvernig væri að gefa pólitíkusunum frí og skipa þjóðstjórn sem að þjóðin gæti sameinast á bak við?

 


mbl.is Ræddu um stöðugleikasáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta eru frábærar fréttir.

Á þessum síðustu og verstu tímum hef ég lært að nýta hvert tækifæri til þess að gleðjast yfir hlutunum. Það hefur nú ekki mjög margt komið frá háttvirtri ríkisstjórn sem að hægt er að gleðjast yfir og virðist sú stjórn helst einbeita sér að því að koma með fýlusprengjur í samfélagið og frekar vera til í að skapa deilur heldur en sættir. Það eru því mjög góðar fréttir að hún ríkisstjórnin ætli að horfast í augu við skuldavanda heimila. Það er eitthvað sem að mjög margir eru búnir að berjast fyrir í rúmt ár, án þess að ná eyrum ríkisstjórnarinnar. Síðasta kosningabarátta snérist að stórum hluta um það hvernig flokkarnir ætluðu að taka á skuldavanda heimilanna. Framsókn kom með sína útgáfu, Sjálfstæðisflokkurinn einnig og gott ef Samfylking kom ekki með sína útgáfu líka. Síðan hefur liðið ár og ekkert gerst, nákvæmlega ekkert. Jóhanna ítrekar að skjaldborg skuli slegin utan um heimilin en eftir að hafa séð skattahækkanir og það besta, skattstofn myndaður utan um afskriftir lána, þá virðist sem skjaldborgin sé frekar umsátur en skjaldborg. Skjaldborg myndi nefninlega verja hag heimilanna í stað þess að ráðast á þau. Helstu aðgerðir ríkisstjórnar Íslands hefur hingað til verið að ráðast á heimilin frekar en að hjálpa þeim.

En ríkisstjórn Íslands hefur nú loksins áttað sig á því að heimilin eigi í raun við skuldavanda að stríða og því skuli málið rannsakað. Þó allt of seint sé, þá er það fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli nú loks vakna af þessum Þyrnirrósarblundi sínum. En það er ekki fagnaðarefni nema að á eftir fylgi einhverjar aðgerðir. Þær aðgerðir mega ekki vera minni heldur en veruleg eftirgjöf eða niðurfelling skulda sem að er svo ekki skattlögð. Því er það lífsspursmál fyrir heimilin og reyndar fyrir alla þjóðina að berjast með hvaða ráðum sem er til þess að afskriftarskattafrumvarp Steingríms verði dregið verði aldrei að veruleika. Annars er til einskis að komast að skuldavanda heimila ef að það ríkisstjórnin ætli svo að loka einu nothæfu leiðinni til þess að greiða úr honum.


mbl.is Rannsókn á skuldastöðu heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki verið að reyna að breyta lánskjörum eftirá?

Ég vil byrja á því að taka það fram að ég trúi á réttarríkið og ef fólk telji sig vera órétti beitt þá á það tvímælalaust að leita réttar síns. Ef gengislán eru ólögmæt þá eru þau ólögmæt og fjármögnunarfyrirtækin verða að súpa seyðið af því að bjóða upp á lán sem að síðan stóðust ekki laganna bókstaf.

En, sú staðreynd að þetta væru lán sem að væru gengistryggð en ekki vísitölutryggð kom ekki í veg fyrir að þessi lán rynnu út eins og heitar lummur. En sú staðreynd lá fyrir þegar að fólk í hópum tók þessi lán. Ég áfellist ekki fólkið vegna þess að eins og þessi lán litu út á sínum tíma þá var þetta mjög góður kostur, sér í lagi vegna þess að verðbólga hefur verið há á Íslandi mjög lengi. En fólk vissi alltaf að þetta væru gengistryggð lán og þeim fylgdi alltaf nokkur áhætta. Nú kemur í ljós með falli krónunnar að sú áhætta var og er raunveruleg. Þökk sé gengi gjaldmiðla hafa þessi lán hækkað langt umfram vísitölutryggð lán. En fólk vissi nákvæmlega að þetta var hættan og að gengistryggðu lánin væru gengistryggð. Þess vegna spyr ég mig hvort að ekki sé verið að reyna að breyta lánskjörum sem að fólk gekkst undir með sinni undirskrift, eftirá?

En ekki ætla ég að sýta það þó að fjármögnunarfyrirtækin fengju skellinn enda hef ég heyrt mjög mörg dæmi um mjög harkalega framkomu þeirra í garð skuldara. Þau fá þá skellinn fyrir að vera svo "vitlaus" að bjóða upp á lán sem að var ekki lagagrundvöllur fyrir. En hvernig ætla menn að leysa það ef að gengistryggð lán reynast svo ólögleg eftir allt saman? Á að breyta þeim í krónulán og reikna verðbætur út frá vísitölu í stað gengis gjaldmiðla allt aftur til þess dags þegar lánið var tekið. En ef fólk hefur greitt inn á þessi lán? Það gæti orðið mjög flókið að finna út úr því hvað fólk raunverulega skuldar ef að gengistryggingin reynist svo ólögmæt. Og þetta endar ekki með bílalánunum því að margir tóku húsnæðislán í erlendri mynt, þá hlýtur það sama að gilda um þau. Þetta mál, þó svo að Gylfi Magnússon geri lítið úr því, gæti hrisst ærlega upp í bankakerfinu.


mbl.is Hæstiréttur þarf að skera úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstök ríkisstjórn.

Vinstri menn í þessu landi eru sífellt að reyna að sannfæra landann um ágæti þessarar ríkisstjórnar, að hún sé miklu betri en allar þær ríkisstjórnir sem að Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í og að þessi ríkisstjórn sé alveg einstök í sinni röð. Fyrir mér er þetta ekkert annað en minnimáttakend og að menn séu að reyna að breiða yfir vandræðaganginn og úrræðaleysi þessarar ríkisstjórnar. En ein staðreynd gerir þessa ríkisstjórn algjörlega einstaka í sinni röð. Ég vona að ég fari ekki með rangt mál en ég man ekki eftir því að ríkisstjórn hafi fengið á sama tíma, alla aðila vinnumarðaðarins upp á móti sér. Að vísu fer afar hljótt um óánægju ASÍ enda er formaðurinn innvinklaður lengst inn í Samfylkinguna. Það kemur heldur ekkert á óvart að formaður SA sé óánægður enda Sjálfstæðismaður, að vísu ESB sinni líka en Sjálstæðismaður engu að síður. En óánægjutónninn í ASÍ og SA fer ekki framhjá neinum.

En hvers vegna skyldu forkólfar ASÍ og SA vera óánægðir? Er ekki allt á uppleið eins og Jóhanna sagði í forsíðugrein Fréttablaðisins fyrir stuttu? Jú mönnum kvíðir virkilega fyrir skattahækkunaráætlunum ríkisstjórnar Íslands. Menn sjá ekki fyrir sér að heimilin og fyrirtækin í landinu beri þessa gríðarlegu skatta. Það sem að ég hræðist hvað mest er hvernig mun atvinnulífið í landinu bregðast við auknum álögum strax í janúar. Þegar skattar voru lækkaðir í tíð ríkisstjórna með Sjálfstæðisflokkin innanborðs þá jukust tekjurnar þegar að skatturinn lækkaði. Nú koma þessar skattahækkanir á tímum þar sem að þau fáu fyrirtæki sem að ríkið hefur ekki tekið yfir og svo heimilin í landinu standa höllum fæti.  Gæti verið sá möguleiki fyrir hendi að tekjurnar dragist saman þegar skattarnir verða hækkaðir?

En skattahækkanir fremur en niðurskurður er mjög þekkt og mjög einkennandi fyrir vinstri stjórn. Þessi ríkisstjórn er því ekki einstök að því leytinu til að hún beitir sömu meðölum á kreppuna og fyrri vinstri stjórnir gerðu. Aukin skattlagning var eina úrræðið sem að menn kunnu þá og aukin skattlagning er eina úrræðið sem að menn kunna í dag. 

Það verður að útvega ríkinu tekjur eða draga úr útgjöldum þess, það er enginn spurning. Hins vegar verða heimilin í landinu að lifa af og við verðum að hvetja fólk til þess að afla peninga og hvetja til einkaneyslu. Það að auka álögurnar hjálpar ekki heimilunum, og það að þrepaskipta skattkerfinu drepur viljann til þess að afla peninga og enn frekar viljann til einkaneyslu. Með þrepaskiptu skattkerfi mun einkaneysla dragast enn frekar saman sem að mun auka enn á vanda fyrirtækja sem að er þó ærinn fyrir. Þetta er í einu orði sagt snarvitlaus hugmynd snarvitlausrar ríkisstjórnar.

Niðurskurður er leið sem að menn þurfa að fara miklu harðar í heldur en er vilji til hjá þessari ríkisstjórn. Það er ekki af ástæðulausu því að bönd verkalýðsins og vinstri flokkanna eru sterk. Þar að auki er niðurskurðarleiðin sársaukafull þar sem að það leiðir til aukins atvinnuleysis sem að er að sjálfsögðu ekki gott. En að hlífa hinu opinbera og hreinlega slátra heimilunum og fyrirtækjunum í landinu er heldur ekki góð leið.


mbl.is Munu ekki una skattahækkunum sem lengja kreppuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki í mína þágu.

Það er alveg ljóst að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur starfar ekki í mína þágu. Ég get svo sem ekki metið hvort að hún starfar í þágu annarra, er hreinlega ekki í aðstöðu til þess.

Í fyrsta lagi virðist sem að það sé álit Samfylkingarinnar að einskis skal ófreistað og öllu sé fórnandi til þess að komast í hagsmunaklúbb stóru ríkjanna í Evrópu, þar sem að aðeins sjónarmið þeirra stóru og sterku ráða ríkjum. Það kemur sér afar illa fyrir alla þá aðila hér á landi sem að hafa sérstakra hagsmuna að gæta. Þessir sérhagsmunahópar eru svo sem ekki margir en fjármunirnir sem að þeir velta og störfin sem að þeir veita eru gríðarlegir. Ég starfa í geira eins þessa sérhagmunahóps, sjávarútvegsins. Ekki nóg með að Samfylkingin starfi þvert gegn hagsmunum þessa hóps, heldur sýndi einn ráðherra Samfylkingarinnar þessum hóp í heild sinni barasta puttann í liðinni viku. Árni Páll Árnason hefði alveg eins getað sagt sjávarútveginum og stóriðjunni að éta skít og afsakið orðbragðið hoppa þangað sem sólin skín ekki. Svona lítilsvirðing og orðræða í garð eins þeirra sem að afla margra milljarða í gjaldeyristekna í hverjum mánuði á sér ekki neina hliðstæðu í íslenskri pólitík. Með þessu var Árni Páll Árnason að gefa skít í ekki bara forustumenn stóriðju eða sjávarútvegs heldur líka gaf hann skít í alla þá sem að starfa í þessum greinum því að hagsmunir beggja fara nefnilega saman. Það er því alveg á hreinu að Árni Páll Árnason starfar ekki í mína þágu.

Ég er frjálshyggjumaður og skammast mín nákvæmlega ekkert fyrir það. Sem frjálshyggjumaður þoli ég ekki ríkisrekstur. Það er ekkert form rekstrar verri heldur en ríkisrekstur. Ég lít svo á að það að reka stofnun og að reka fyrirtæki sé nákvæmlega sami hluturinn. Ein helsta skylda fyrirtækis er sú að fyrirtækið verður að lifa af. Sama hvað á gengur, starfsemi þess gengur út á að starfsemin geti haldið áfram. Fyrirtæki hafa einungis úr þeim peningum að spila hverju sinni sem að koma inn í kassann. Fyrirtæki geta ekki gert eins og vel flestar stofnanir gera hér á landi að fara fram á aukafjárveitingu þegar það er búið að eyða öllum sínum peningum. Og jafnvel með aukafjárlögum þá geta stofnanir samt ekki rekið sig og safna skuldum. Þess vegna finnst mér afar sorglegt að í tíð Sjálfstæðisflokksins skuli ríkisrekstur hafa þanist út þegar hann hefði átt að dragast saman. Enn sorglegra finnst mér samt að þessi stjórn sem nú er við völd skuli einblína á skattahækkanir frekar en niðurskurð í hinu opinbera. Jú vissulega munu tapast störf en það síðasta sem að heimilin í landinu þurfa á að halda eru auknar álögur. En ríkisstjórn Jóhönnu hefur tekið stefnuna, hinu opinbera skal hlíft en í staðin skulu heimilin blæða. Það er örugglega ekki í mína þágu, og ég veit að ASÍ og Samtök Atvinnulífsins eru mér sammála. Það er ástæðan fyrir því að stöðugleikasáttmálinn, sem var á sínum tíma svo merkilegur að hann jafnaðist á við þjóðarsáttarsamninganna á sinum tíma, er eins og svissneskur gataostur í dag. Og þessir aðilar vinnumarkaðarins hafa svo litla trú á núverandi stjórnvöldum að þau velta því fyrir sér að semja sín á milli án aðkomu ríkisstjórnarinnar.

Vegna þess að þessi ríkisstjórn starfar ekki í þeirra þágu, ekki í þágu atvinnurekenda, ekki í þágu launþega, að mati þessara aðila vinnumarkaðarins.

Í hverra þágu starfar hún þá?


mbl.is Á methraða inn í ESB?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með öðrum orðum þetta gengur af Íslandi dauðu.

Það er þá ágætt að sú viðurkenning er fenginn af hendi Steingríms Jóhanns Sigfússonar sem að er svo sannarlega höfundur þessa alþjóðlega klúðurs sem að Icesave málið er komið í. Niðurstaða þessa samnings er sú að Íslendingar viðurkenna ekki að þeir þurfi að greiða krónu eða evru eða pund, en við ábyrgjumst samt að borga vextina af því. Hvernig getur nokkur þjóð eða aðili þurft að borga vexti af engu? Ég hefði haldið að ef það kemur í ljós að við munum ekki þurfa að borga neitt umfram það sem að eignir Landsbankans standa undir þá hefðu vaxtagreiðslurnar fallið niður líka. En ekki í huga Steingríms J. Sigfússonar. Vaxtagreiðslurnar standa eftir sem áður, litlir 230 milljarðar.

Núna liggur fyrir 170 milljarða niðurskurður og skattahækkanir hjá hinu opinbera. Að sjálfsögðu er áherslan lögð á skattahækkanir enda er vinstri stjórn við völd. Niðurskurður er eitthvað sem að vinstri stjórnir leggja ósjaldan í. Þetta er alveg þekkt frá tíð fyrri vinstri stjórna. Það er varhugavert að skattleggja einstaklinga og fyrirtæki um of vegna þess að það verður ekki ríkið, ekki Steingrímur og ekki Jóhanna sem að munu byggja þetta land að nýju eftir hrun. Það munu einstaklingarnir og fyrirtækin gera, án aðstoðar hins opinbera. En ríkið hefur öll tækifæri til þess að setja stein í götu einstaklinga og fyrirtækja við það að byggja landið upp að nýju. Og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur nýtir hvert og eitt einasta þeirra. En eins og áður sagði 170 milljarða niðurskurður og skattahækkanir liggja fyrir bara til þess að ríkið muni ná endum saman. Hvar í veröldinni ætlar Steingrímur að 7 árum liðnum að finna auka 230 milljarða til þess að borga vexti til Breta og Hollendinga? Hvernig ætlar Steingrímur að afla gjaldeyristekna til þess að borga 50 milljarða á ári í erlendum gjaldeyri til Breta og Hollendinga? Mitt svar er að hann eða þau stjórnvöld munu ekki finna þessa peninga. Þau stjórnvöld sem að verða þá við völd munu hafa einn kost, að taka þessa peninga af gjaldeyrisvaraforðanum eða fá þau að láni. Íslendingar munu því vera að borga Icesave langt langt umfram það sem að samningurinn nær til.

Með þessum samningi og með aðgerðum ríkisstjórnar Íslands sem að miða að því að viðhalda hinu opinbera og færa allar byrðarnar á fyrirtæki og einstaklinga munu svo sannarlega ganga af Íslandi dauðu. Með þessum aðgerðum hefur ríkisstjórn Íslands ritað grafskriftina á framtíð þjóðarinnar vegna þess að þau hafa oftrú á sjálfum sér. Ríkisstjórn Íslands mun ekki, getur ekki og hefur engan áhuga á því að endurreisa Ísland. Einstaklingar og fyrirtæki geta það og hafa áhuga á því en fá ekkert frelsi og alls ekkert svigrúm til þess að endurbyggja þetta land. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrímur Jóhann Sigfússon sjá fyrir því.


mbl.is Fjárlagaagi verður erfiður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska þjóðin hefur ekki efni né áhuga á prinsipp málum VG.

Ekki alls fyrir löngu lét formaður loftlagsnefndar Sameinuðu þjóðanna hafa eftir sér að Íslendingum bæri skylda til þess að nýta endurnýtanlega orkugjafa svo sem jarðvarma og vatnsföll til framleiðslu á t.d. áli, málmi sem að heimurinn þarf og mun þurfa í náinni framtíð. Þarna er tekið undir sjónarmið Sjálfstæðismanna, Framsóknarmanna og Samfylkingarinnar í stóriðjumálum. Að nýting endurnýjanlegra orkugjafa hér komi í veg fyrir að orkugjafar eins og kol og olía séu notaðir til rafmagnsframleiðslu annars staðar. Af sömu ástæðu styðja reyndar einungis Sjálfstæðismenn orkuútrásina svokölluðu. Vegna þess að ef okkur tekst að nýta þá þekkingu til þess að nýta jarðvarma í heiminum þá erum við að koma í veg fyrir brennslu jarðefnaeldsneytis til rafmagnsframleiðslu og þannig leggja okkar af mörkum í loftslagsmálum. Undir þetta sjónarmið tók formaður loftslagsnefndar Sameiniðuþjóðanna heils hugar.

Og svo koma Vinstri Grænir. Það sem að er umhverfisvernd í öðrum löndum er spilling á umhverfinu hér. Það hefur vakið athygli t.d. í Bandaríkjunum að Íslendingar skuli ekki að neinu leiti framleiða raforku með jarðefnaeldsneyti. En gegn virkjun orkunnar berjast Vinstri Grænir hatramlega. Orkuauðlindirnar sem að við eigum eru nefnilega einskis virði ef að þær eru ekki nýttar. Þær eru meiri og mikilvægari en svo að það megi aðeins tala um þær á tyllidögum en þar fyrir utan má ekki nefna nýtingu þeirra á nafn. Það að orkuauðlindirnar standi ónýttar um ókomna framtíð er nefnilega algert prinsipp mál hjá Vinstri Grænum.

Og Vinstri Grænir hafa sett stein í götu nýtingar á auðlindunum hvar sem að þeir hafa komið því við. Orkuútrásin hefur verið þeim þyrnir í augum, Kárahnjúkavirkjun var það líka og nú beita þeir valdi sínu til þess að varp allri þeirri vinnu sem að hefur verið unnin vegna Álvers á Bakka fyrir róða, bara vegna þess að þeir eru í prinsippinu á móti nýtingu orkuauðlinda. Bera því við að það eigi að nýta orkuna í eitthvað annað sem að þeir geta ekki einu sinni bent á hvað er.  Ég segi að við höfum ekki efni á þessum síðustu og verstu tímum á prinsipp málum Vinstri Grænna. Vilji þeir vera á móti öllu, mega þeir það en þeir eiga þá að stíga til hliðar. Ábyrgur stjórnmálaflokkur stöðvar ekki vinnu margra ára, af því bara. Gefa enga skýringu sem að mark takandi er á. Þannig stjórnmálaflokkur er ekki stjórntækur og á ekki á nokkurn hátt heima í ríkisstjórn. 


mbl.is Samtök iðnaðarins gagnrýna vinnubrögð stjórnvalda harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert stefnir ríkisstjórn Íslands?

Í nágrannalöndum okkar hefur lengi verið við líði sterkar vinstri stjórnir, yfirleitt með sósíal-demókrata sem að eru náskyldir Samfylkingunni hér. Í Bretlandi heitir flokkurinn hins vegar Verkamannaflokkurinn. Í nágrannalöndum okkar er ólíkt okkur mjög sterkt félagslegt kerfi, mun sterkara félagslegt kerfi heldur en er hér á landi. Við fyrstu sýn virðist sem mjög sterkt félagslegt kerfi sé af hinu góða og sú hugsun að aðrir samborgarar þeirra sem að hafa skerta vinnugetu af einhverjum mögulegum ástæðum sé bara af hinu góða...eða hvað?

Bætur, hvaða nafni sem að þær nefnast, hvort sem að það eru atvinnuleysisbætur, örorkubætur eða eitthvað annað er að fólkið sem að er á þeim skilar engu til samfélagsins. Það eru skatttekjur þeirra sem að samfélagið verður af. Frá sjónarhóli þjóðhagfræðinnar eru bætur það versta sem til er. Í Bretlandi er það vandamál hve stór hluti þjóðarinnar lifa bara á bótum. Mann fram að manni vinnur heilu þjóðfélagshóparnir ekki neitt og sýna engan vilja til þess að vinna. Það er búið að loka þetta fólk af á bótunum, það býr í heilu hverfunum og jafnvel heilu borgarhlutunum og vandamál Breta er að þessi þjóðfélagshópur skilar engu til samfélagsins. Í Danmörku er það vandamál nútímans að reyna að draga úr "sósialnum", vegna þess að hann er svo dýr fyrir ríkið.

Mín skoðun er sú að það versta við bætur er að þær ræna fólki tækifærum, eða ræna fólk viljanum til þess að nýta sér þá hæfileika sem að fólk þó hefur þrátt fyrir örorku, atvinnumissi eða annað. Hættan er sú að við lokum fólk af í félagslega kerfinu og að það sé engin leið út úr því. Hættan er sú að fólk sem að lifir á bótum lokist af og að eins og hefur gerst í Bretlandi að mann fram að manni sé lokað af í félagslega kerfinu og búið sé að ræna fólki tækifærum til þess að sjá fyrir sér sjálfu og hafa það betra.

Og ríkisstjórnin er ekki sú eina sem að virðist ætla að búa til sér þjóðfélagshóp á bótum. Sveitarfélög eru miklu verri. Ekki alls fyrir löngu tóku Skagamenn á móti fólki frá mið-Austurlöndum og gaf þeim tækifæri til þess að eignast betra líf hér. Fólkið sem að var vant lífi í tjöldum, þekkti hreinlega ekki lifnaðarhætti hér tók tækifærinu fegins hendi. En hvað gerist? Jú fólkið fær íbúðir á vegum bæjarins, því er gefið tækifæri til betra lífs hér á Akranesi. En því er ekki sýnt hvernig venjulegur Íslendingur vinnur fyrir sér, því var ekki einu sinni sýnt hvernig fólk býr í húsum en ekki tjöldum. Íbúðirnar eftir greyið fólki voru óíbúðarhæfar eftir þetta ár sem að verkefnið tók og Akranesbær þurfti að leggja í mikinn kostnað að laga ónýt gólfefni og ónýtar innréttingar. Enginn kenndi fólkinu hvernig fólk bjargar sér, hvernig það vinnur fyrir sér á Íslandi. Nú þegar verkefninu er lokið er fólkið í nákvæmlega sömu sporunum og þegar það kom. Það hefur aldrei unnið, það er svo að segja mállaust hér á Íslandi og það eina sem að það getur gert er að búa í íbúð á vegum bæjarins og taka við bótum frá bænum. Það er búið að ræna fólkinu til þess að eignast það líf sem að við flest okkar á Íslandi njótum. Sannkallaður bjarnargreiði þarna á ferð. En það er ekki fólkinu að kenna. Ég er ekki í vafa um að fólki vill sjá sjálfu sér farborða og vinna fyrir sér, ef það vissi hvað það væri. Sökin er ríkisins og sveitarfélagsins.

Félagslegt kerfi er af hinu góða en það getur hins vegar rænt fólki tækifærum. Þess vegna ætti það að vera hverri ríkisstjórn og hverju sveitarfélagi það algert kappsmál að öllum vinnandi höndum séu gefin tækifæri til þess að vinna fyrir sér, finna fólki vinnu, vinnu við hæfi. Það má aldrei vera betra að lifa á bótum því að þá erum við að ræna fólki tækifærum og þá eru bæturnar orðnar sannkallaður bjarnargreiði.


mbl.is Betra að vera á bótum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhann Pétur Pétursson
Jóhann Pétur Pétursson

með skoðanir á um það bil öllu

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband