Og hvað hefur ríkisstjórnin gert til þess að öðlast traust almennings?

Í hennar tíð hefur atvinnulausum fjölgað úr 14000 manns í 19000 manns þannig að ekki fær hún prik þar.

Hún hefur ekki enn hafið niðurskurð í ríkisfjármálum þrátt fyrir að hafa setið síðan í febrúar. Í staðinn þar að skera niður og hækka skatta um 20 milljarða sem að allt bitnar á þjóðinni á sex mánuðum í stað ellefu.

Steingrímur Jóhann Sigfússon kemur úr þessari hræðilegu eyðimerkurgöngu sinni eftir að hafa samið um Icesave deiluna með verra samkomulag heldur en þó var undirritað í vetur af fyrrverandi ríkisstjórn. Þannig virðist hann hafa farið í þessa eyðimerkurgöngu sína en komið til baka slippur og snauður.

Ríkisstjórnin hefur hækkað álögur sem að síðan leiða til hækkunar á verðbólgu sem að lokum hækkar öll lán í landinu, eins og þau væru ekki orðin nógu há fyrir.

Ríkisstjórn hefur lagt ofuráherslu á að bæði skera niður og skattleggja en lyftir ekki svo mikið sem litla fingri til þess að styðja fyrirtækin í landinu, mynda nýja skattstofna og styrkja þá sem að voru fyrir. Eitthvað sem að ætti að vera eðlilegt fyrir ríkisstjórnir sem að glíma við tekjuvanda.

Ríkisstjórnin leggur til að Alþingi samþykki ríkisábyrgð vegna samnings sem að aldrei stóð til að birta. Það er ekki fyrr en eftir mikið þóf og stór orð á Alþingi að Alþingismenn sjálfir fá að sjá samninginn sem að þeir eiga sjálfir að samþykkja. Slíkt leynimakk stangast algjörlega á við opnu pólitíkina sem að VG og Samfylkingin þóttust ætla að stunda eftir kosningar. Eiginlega skjóta þeir Sjálfstæðismönnum ref fyrir rass í þeim efnum sem að þó tóku margar ákvarðanir í reykfylltum bakherbergjum. 

Hins vegar verður að virða það við þessa ríkisstjórn að verkefnið er gríðarlega erfitt og algerlega útilokað að komst í gegnum þessa hluti án þess að vera óvinsælir á eftir. Ef að hins vegar ekki finnst meiri dugur í ríkisstjórn og stjórnarliðum en það að hún þarf að treysta á stuðning Sjálfstæðismanna til þess að koma þessu skelfilega Icesave máli í gegn þá efast ég stórlega um að þessi ríkisstjórn sé hæf í þau verkefni sem að fram undan eru. Veturinn verður mjög erfiður, blátt áfram skelfilegur en fjandinn hafið það það er varla komið sumar og þessi ríkisstjórn virðist í andaslitrunum. Ef hún springur sem að ég vona ekki þrátt fyrir að vera Sjálfstæðismaður, þá yrðu afleiðingarnar skelfilegar. Ríkisstjórnir eiga að vera íhaldssamar og standa hvað sem á dynur en þessi ríkisstjórn virðist ekki hafa dug og kjark til þess.


mbl.is Forsætisráðherra magnaði upp draug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Íslendingar

með það að við skulum gefa hræsnurunum löngu töng og nýta þessa auðlind eins og hverja aðra auðlind. Nánast allar þjóðir í veröldinni stunda veiðar af einhverju tagi, á spendýrum sem öðrum dýrum. Samt sem áður hafa fjölmargar þjóðir kosið að taka bara hvalveiðar, setja þær á einhvern sérstakan stall og segja að þær séu ljótar og þar fram eftir götunum. Þá eru jafnvel vísindaleg rök höfðu að vettugi. Enginn fárast við hvalveiðum sjálfra Bandaríkjamanna, mestu hvalveiðiþjóðar í heimi en samt sem áður leyfa þeir sér þá hræsni að finna að hvalveiðum annarra ríkja. Hvalur verður veiddur hér við land ekki nema að innlendir hræsnarar komi til og banni þær.

Mér finnst líka merkilegt að það er aðeins einn flokkur á móti Hvalveiðum en það er VG. Vinstri hreyfingin Grænt framboð er nú í ríkisstjórn og því finnst mér rétt að nefna að þessi ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar hefur skapað fleiri störf heldur en öll ríkisstjórnin hefur megnað að gera á fimm mánaða valdatíma. Hvort það séu flokkunum sem að mynda ríkisstjórnina að kenna eða lýsi á einhvern hátt fólkinu sem að er í ríkisstjórninni skal ósagt látið. Hins vegar er þetta ákaflega merkileg staðreynd sem að enginn getur litið fram hjá.

Ég tel mig ekki vera í aðstöðu að fordæma þessar veiðar frekar en einhverjar aðrar veiðar sem að stundaðar eru hérlendis sem erlendis. Þessar veiðar eru nákvæmlega ekkert öðru vísi en veiðar á dýrum almennt og eina röksemdin gegn þessum veiðiskap er álit annarra ríkja. Ég get ekki séð að við Íslendingar hafi notið einhverrar velvildar annarra þjóða gegnum tíðina þannig að ég skil ekki alveg hvað er að óttast í þeim efnum. Kannski einhver komi og útskýri það fyrir mér.


mbl.is Hvalur 9 á leið til lands með tvær langreyðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðinu ógnað innan frá.

Það eru engir sem að ógna lýðræðinu og lýðveldinu Íslandi aðrir en við sjálf. Mörg ríki hafa notið aðstoðar Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins án þess að því fylgi afsal á öllu stjórnvaldi og stjórnsýslu og að ákvarðanir í öllum meiri háttar málum verði teknar erlendis. Er ég að sjálfsögðu að tala um aðild að ESB. Svo virðist sem að það sé gegnum gangandi meðal ESB sinna að þeir séu einfaldlega uppgefnir á því að vera sjálfstæð þjóð. Ég velti því fyrir mér hvað hefði orðið um okkur Íslendinga ef að þetta fólk, þetta uppgefna fólk hefði verið við stjórnvölinn fyrir 65 árum. Þá værum við sennilega ekki að halda upp á afmæli neins lýðveldis núna. Nú á afmæli lýðveldisins Íslands verðum við hins vegar að kveða þessar uppgefnu raddir niður, segja að við séum stolt þjóð með stórt hjarta og að svoleiðis þjóð verði aldrei vært undir nokkrum kringum stæðum í hagsmunaklúbbi hinna stóru. Ísland hefur áður boðið stórum þjóðum byrginn og jafnann haft sigur og hvers vegna ekki nú?


mbl.is Lýðveldið veikara en nokkru sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaus samninganefnd, vitlaus ríkisstjórn?

Steingrímur Jóhann Sigfússon fjármálaráðherra fór mikinn í ræðustól Alþingis í vetur gagnvart gjörðum og samningum þáverandi ríkisstjórnar varðandi samninga um Icesave deiluna. Þá var gangrýndur sá sameiginlegi skilningur milli deiluaðila að vissulega beri Íslendingar ábyrgð á innistæðunum enda lögðu aðilar í Bretlandi og Hollandi þær inn á reikninga íslensks banka sem að starfaði erlendis. Hins vegar var sá sameiginlegi skilningur líka milli stjórnvalda þessara landa að samkomulagið mætti ekki undir nokkrum kringum stæðum höggva nærri íslensku þjóðinni. Þetta var það samkomulag og sá skilingur sem að Björgvin G. Sigurðsson og Árni Mattiesen skrifuðu undir með hag þjóðarinnar fyrst og fremst ð leiðarljósi enda var á þeim tíma ekki aðeins höggvið nærri alþjóða samningum eins og EES heldur líka var verið að stöðva alla utanríkisverslun Íslendinga.

Og svo kemur Steingrímur sjálfur til skjalanna. Hann virðst vera enn vitlausari en útrásarvíkingarnir þó þeir hafi nú verið nógu vitlausir samt, fær gamla félaga sína úr Alþýðubandalaginu til þess að semja við Hollendinga og Breta og án allrar ráðgjafar kemur verra samkomulag en það samkomulag sem að Steingrímur gagnrýndi hvað harðast. Ekki aðeins er samið upp á 2,5% vaxtamun sem að þýða 113 milljarða í vaxtagreiðslur að loknum 7 árum heldur er algjörlega takmarkalaust hve stórt skarð þetta getur höggvið í þjóðarbúið og hve stórt hlutfall lokagreiðslan verður af landsframleiðslu. Það er ekki nóg með að Bretar og Hollendingar fái allan skaðann bættan upp í topp heldur munu þeir græða á samningnum sem svarar 113 milljörðum að minnsta kosti og það er ekkert þak á því hvað lokagreiðslan getur orðið há. Hún gæti numið að minnsta kosti 800 milljörðum eða eitthvað meira. Svo virðist sem að Steingrímur hafi farið í þessa eyðimerkurgöngu sína algerlega til einskis.

En erum við í aðstöðu til þess að hafna þessu samkomulagi? Er það sama ekki undir eins og var undir þegar að Björgvin G. Sigurðsson og Árni Mattiesen skrifuðu undir þann smánarlega samning eins og Steingrímur hefur orðað það sjálfur? Að ekki aðeins EES samningurinn sem að er undirstaðan undir stórum hluta okkar utanríkisverslunar heldur sé utanríkisverslun okkar í heild sinni í hættu? Ríkisstjórn getur ekki svarað mörgu um þetta samkomulag og hún getur ekki einu sinni svarað því hvort svo sé.

Og svo virðist sem að það velti á Sjálfstæðisflokkun hvort þessi samningur nái fram að ganga. Nú eru 5 mánuðir síðan að mjög langri valdasetu Sjálfstæðisflokksins lauk en þessi ríkisstjórn vinstri manna er svo aum, svo léleg, að enn er Sjálfstæðisflokkurinn við völd þó óbeint sé. Og hverjir eru valkostirnir? Jú við getum staðið við þetta smánarsamkomulag þeirra félaga Steingríms og Svavars Gestssonar, félaga úr Alþýðubandalaginu, eða hvað? Hvert verður þá plan B ef að þingmenn segja nei við samningnum. Ábyrgur og málefnalegur stjórnmálaflokkur, hvort sem að hann er til hægri eða vinstri getur ekki hafnað samningnum án þess að gera sér einhverja grein fyrir hvað gerist ef samningnum verður hafnað.


mbl.is Einleikur forseta á bjöllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það allt í einu orðið refsivert athæfi að fara að lögum og reglum?

Það mætti skilja af þeim hugsjónasauðum sem að tjá sig í gríð og erg um þetta kvótakerfi er að það eigi hreinlega að refsa útgerðarmönnum fyrir að hafa keypt sér kvóta. Útgerðarmenn og sjávarútvegurinn allur hefur ekkert gert annað en að spila eftir þeim lögum og reglum sem að um greinina hefur gilt frá því að kvótakerfið var sett á og nú er það tortryggt af einhverjum hugsjónasauðum og nánast gert að refsiverðu athæfi að fara eftir lögum og reglum.

Auðvitað verðum við að finna lendingu í þessu máli, þannig að þau störf og þau verðmæti sem að eru bundin í greininni glatist ekki og hvernig sem kvótakerfinu verður breytt þá geti fyrirtækin starfað áfram. En málflutningur bloggheima þegar kemur að kvótakerfinu er alveg með ólíkindum. 95% þess kvóta sem að er nýttur í dag hefur skipt um hendur, með öðrum orðum verið keyptur. Það var gert eftir þeim leikreglum sem að stjórnvöld sjálf settu. Útgerðarmenn geta ekki borið ábyrgð á gallaðri lagasetningu stjórnvalda. Og það á ekki að refsa útgerðarmönnum með því að taka frá þeim einu eignina sem að er einhvers virði. Það er eins og að refsa mönnum fyrir að fara að þeim reglum sem að stjórnvöld settu á sinum tíma.

Fyrir mér skiptir nákvæmlega engu máli hvort að kvótinn sé í eigu útgerðanna í landinu eða þjóðarinnar. Þjóðin er ekki að fara að nýta úthafskarfa á Reykjaneshrygg eða Norsk-Íslenska síldarstofninn. Það gera útgerðirnar hins vegar. Þess vegna, hvaða breytingar sem að við gerum á kvótakerfinu, verður að tryggja að þær útgerðir sem að eru í greininni geti starfað áfram og að við auðveldum enn frekar nýjum útgerðum að komast að. Þetta tvennt gerist ekki með fyrningarleiðinni. Jú vissulega munu nýjar geta komist að, en þær útgerðir sem að voru í greininni fyrir, keyptu kvóta þær verða lagðar í rjúkandi rúst og með þeim munu tapast þúsundir starfa auk mikil verðmæti. Á tímum kreppu er ekki nokkrum stjórnmálamanni stætt á að standa fyrir svoleiðis málflutningi.


mbl.is „Eigandinn heldur áfram að borga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég ætla að gerast spámaður.

Fyrst mun Samfylkingin og þeirra stuðningsmenn reyna að telja okkur trú um að eina leiðin til þess að vita hvort við fáum undanþágur frá sáttmálum og reglugerðarverki ESB sé að fara í aðildarviðræður. Þetta mun Samfylkingin predika yfir okkur dag og nótt á meðan þessi þingsályktunartillaga verður rædd. Samfylkingin mun líka predika yfir okkur að EINA leiðin út úr efnahagsvandanum sé að sækja um aðild að ESB og taka upp evruna. Samfylkingin ásamt kannski Framsóknarmönnum munu samt setja háleit markmið um undanþágur frá sjávarútvegskafla Rómarsáttmálans, undanþágur frá þessu og undanþágur frá hinu. Og þessum málflutningi Samfylkingar hefur meirihluti þjóðarinnar kokgleypt.

Svo þegar að Framsóknarmenn og Samfylking hafa samþykkt þingsályktunartillöguna mun fara í aðildarviðræður. Þá mun það koma í ljós að undanþágur frá sáttmálum ESB eru fátíðar og mjög afmarkaðar. Má þar nefna til dæmi að jú Finnar og Svíar fengu undanþágur hvað varðar landbúnað á harðbýlum svæðum sem að gæti gagnast okkur og Malta fékk undanþágu frá sameiginlegri fiskveiðistjórn en aðeins út af verndunarsjónarmiðum, þeir fengu ekki undanþágu frá sameiginlegri nýtingu. Þingmenn okkar á Evrópuþinginu verða 7, einn fulltrúi í ráðherraráðinu og fulltrúar samkvæmt höfðatölu í öllum öðrum ráðum og nefndum. 

Svo munu þessir fulltrúar Samfylkingar snúa aftur og reyna að predika yfir okkur hvað ESB sé nú frábært og að við þurfum ekki á neinum undanþágum að halda, þvert ofan á það sem að var sagt fyrir viðræður þegar að Samfylking hélt því fram að undanþágur fengjust, og allir stuðningsmenn Samfylkingar munu taka undir og reyna að selja okkur kjósendum þá hugmynd að við Íslendingar höfum engar sérþarfir, getum alveg eins orðið eins og fyrrverandi þingmaður Samfylkingar orðað það, eins og kvótalaust þorp í Evrópu. Staðreyndin er sú að við verðum verr stödd en kvótalausa þorpið því að við munum þá missi fjórðung útflutningstekna okkar svo ekki sé talað um störfin sem glatast.

Ég spái því að samningur um aðild Íslands að ESB muni aðeins snúast um það hvenær við tökum sáttmála og reglugerðarverkið upp, ekki hvort að við tökum þá upp. Undanþága frá sjávarútvegsstefnunni mun ekki fást, að þeirri einföldu ástæðu að önnur ríki innan ESB munu krefjast þess sama. Í því máli getur ESB ekki gefið eftir, og hefur tekið það skýrt fram að þar verði ekki gefið eftir. Þingmönnunum mun ekki fjölga og áhrifaleysi Íslands innan ESB mun ekki breytast. Við eigum engan fulltrúa í ráðherraráðinu og enga fulltrúa á Evrópuþinginu sem að eru jafn mikil áhrif eins og 7 þingmenn hafa á þingi sem að telur 785 fulltrúa eða einn fulltrúi í ráðherraráðinu. 

Ég spái því að engar nákvæmlega engar undanþágur munu fást frá hendi ESB því að menn skulu líka hafa í huga með hvaða hætti við erum að fara inn. Við erum gjaldþrota þjóð, eigum í djúpri efnahagskreppu. Stór hluti heimilanna í landinu sem og meiri hluti fyrirtækjanna berjast við gjaldþrot. Okkur berast fréttir af hópuppsögnum og gjaldþrotum fyrirtækja í hverri einustu viku. Það er ekki mjög gæfuleg samningsaðstaða. Þjóðir í svoleiðis aðstöðu eru ekki beint í aðstöðu til þess að gera miklar kröfur eða hvað?

En þrátt fyrir að öll þau samningsmarkmið sem að sett verða af hálfu Samfylkingarinnar með stuðningi Framsóknar hafi ekki náðst, mun Samfylkingin og hennar stuðningsmenn rembast eins og rjúpan við staurinn að selja ágæti ESB. Það liggur einfaldlega í eðli Samfylkingarinnar sem hóps af mismunandi öflum í íslenskum stjórnmálum en ekki stjórnmálaflokks, að þeir verða að ná að koma okkur í ESB og þeir gera hvað sem er til þess. Aðildin að ESB er nefnilega það eina sem bindur þetta sundurlausa lið saman. 

 


mbl.is Trúnaður ríkir um þingsályktunartillögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er á móti persónukjöri af einni ástæðu...

...vegna þess að það er skylda okkar að hafa þær reglur sem að gilda um atkvæðagreiðslur í kosningum skýrar og einfaldar. Það er nú bara staðreynd að það á mjög margt fólk nógu erfitt með það í dag að kjósa. Við erum að tala um gamalt fólk eða fólk sem að glímir við andlega sjúkdóma. Er jafnvel eitthvað andlega heft. Þetta fólk á samt allt kosningarétt. Þess vegna er það skylda okkar hinna að hafa kosningareglur eins einfaldar og kostur er. Það er hroki af hálfu þeirra sem að segja að við eigum að hafa svona reglur og hins segin reglur vegna þess að það er svo gott fyrir lýðræðið, þegar við í sömu andránni sviptum hluta kjósenda í raun atkvæðaréttinum. Það er mjög alvarlegur hlutur. Um hag þessa fólks er ég mjög uggandi yfir þegar að lýðræðisspekúlantarnir fara að predika um það hvaða reglur við þurfum að setja til þess að lýðræðið verði nú betra. 

Fyrir nokkrum árum var gerð sú breyting á kosningalöggjöfinni að þá var leyfðar útstrikanir af þeim lista sem að þú kaust, ekki öðrum listum. Þetta virkar ekki mjög flókið? En enn þann dag í dag er mikið um það að kjörseðlar eru ógildir vegna þess að fólk kýs einn lista en strikar út af þeim næsta. 

Það er mikið stollt í því að fá að kjósa. Fyrir okkur, líkamlega og andlega heilbrigð er það kannski ekkert tiltökumál, en fyrir fólk sem að á í andlegum erfiðleikum eða að einhverjum orsökum sé líkamleg eða andleg heilsa farin að gefa sig, er það mikið keppikefli. Ég held því fram að með þessu sé Jóhanna og hennar ríkisstjórn að sýna af sér þann gríðarlega hroka að ræna þetta fólk kosningaréttinum vegna þess að þetta fólk óttast eitthvað sem að er flókið. Þið getið sjálf hugsaði ykkur afa ykkar og ömmur, langafa og langömmur. Bara það að fara út í búð getur verið nógu skelfilegt þegar að andleg geta er ekki alveg til staðar. Hvað þá að fara að raða 20 nöfnum upp á nýtt. 

Þetta er ljótt, þetta er hneyksli og svívirða af hálfu Jóhönnu Sigurðardóttur og hennar ríkisstjórn enda hefur konan sýnt það að hún er ekki manneskja lítilmagnans nema síður sé. Sem félagsmálaráðherra á hún líka íslandsmet í að skerða minnir mig barnabætur. 


mbl.is Persónukjör á næsta ári?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð í tíma töluð.

Auðvitað er þetta bara álit eins hagfræðings. Hans orð eru ekkert neinn heilagur sannleikur en gefa þau samt sem áður ekki tilefni til þess að hugsa þessi ESB mál aðeins upp á nýtt.

Í stað þess að skríða á fjórum fótum inn í ESB vegna þess að við eigum í efnahagskreppu eigum við þá ekki að leysa efnahagskreppuna fyrst. Þarna kemur fram sterk vísbending um það að Evran er EKKI lausn á efnahagsvandanum, eigum við þá ekki að setja þessa kosningabrellu Samfylkingarinnar til hliðar og leysa efnahagsvandann fyrst það er sérstaklega vanda fyrirtækja og heimila. 

Svo þegar að kreppan er yfirstaðin sem að gerist vonandi einhvern tíma, þá getum við aftur farið að huga að aðild að ESB sem valkost fyrir þjóðina til frambúðar. Það er ákvörðun sem að þarf miklu lengri aðdraganda, það þarf að ræða fordómalaust kosti og galla aðildar og þjóðin þarf sannarlega að vera upplýst. Ég gef lítið fyrir álit þjóðar sem að hefur verið heilaþvegin mánuðum saman af þeim hræðsluáróðri Samfylkingar að ESB og Evran sé eina lausnin og er þar að auki nýbúin að ganga í gegnum kreppu. Aðild að ESB þarf að vera ákveðin á allt öðrum tíma undir allt öðrum kringum stæðum. Samfylkingin er ekkert annað en að hagnýta sér ástandið á versta tíma í sögu þjóðarinnar. 


mbl.is Írar fleygi evrunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er IMF handbendi lánadrottna?

Það er spurningin. Af hverju ættu þjóðir að leita til IMF ef að þær færu sjálfar verst út úr því? Við höfum alla vega tvö önnur dæmi um þjóðir innan Evrópu sem að hafa leitað til IMF vegna efnahagskreppunnar, Úkraínu og Írland. Er IMF þá líka handbendi lánadrottna gagnvart þeim? Við höfum líka fleiri dæmi um þjóðir sem að hafa leitað til IMF t.d. í Suður-Ameríku og þær virðast standa ágætlega í dag. Var IMF þá líka handbendi lánadrottna eða eins og Kommúnistinn Ögmundur orðar það lögregla kapítalismans gagnvart þeim?

Ég held að þessi orð Ögmundar verði að skoða í ákveðnu samhengi. Samhengi við það að Vinstri hreyfingin grænt framboð hafði mjög mörg og stór orð um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar að þáverandi ríkisstjórn leitað til þeirra eftir aðstoð. Þær voru stórar yfirlýsingarnar sem að kommúnistarnir Steingrímur og Ögmundur og fleiri létu falla í ræðustól Alþingis. Skuldaklafarnir sem að áttu að ná fleiri kynslóðir fram í tímann og þar fram eftir götunum. 

Þessi orð Ögmundar verður líka að skoða í því samhengi að stærsta loforðið í stjórnarsáttmála minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem að var gerður eftir mótmælin/uppreisnina í vetur var að endursemja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég held að út úr þessum orðum Ögmundar megi lesa ákveðna biturð. Hann er bitur yfir því að gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er ríkisstjórn Íslands, gjaldþrota lands ákaflega máttlítil. Þegar þú ert kominn á hausinn þá ertu í ákaflega lélegri samningsaðstöðu. 

Ég held að við eigum að skoða orð Ögmundar í því samhengi að jú IMF er kapítalískt fyrirbæri enda er kapítalisminn alsráðandi í heiminum og þess vegna hefur kommúnistinn Ögmundur alltaf hatað IMF og það að Ögmundur sem og ríkisstjórnin öll er að bregðast því sem að þau lofuðu um að semja upp á nýtt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þeim hefur einfaldlega verið sagt, hér er aðstoðin sem að við erum tilbúin að veita gegn þessum skilyrðum um samninga um Icesave og mjög strangri peningamálastjórn og stjórn á ríkisútgjöldum, takið þessari aðstoð eða reddið ykkur upp á eigin spýtur.

En það er hins vegar áhugaverð hugmynd að hafna aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En þá ábyrgð verður þá VG að taka á sig enda sýnist mér þeir vera á ágætis leið með það, að brenna þá brú að baki okkur líka. Þá erum við svo sannarlega orðin ein í þessari kreppu því að ég man ekki eftir að við Íslendingar ættum svo marga vini í heiminum. Meira að segja fyrrverandi forsætisráðherra kvartaði yfir vinaleysi okkar Íslendinga þannig að ég held að menn ættu að fara varlega í það að hafna þessari aðstoð IMF.

 En að IMF sé eitthvað handbendi einhverra aðila trúi ég ekki því að það hlýtur að vera megin markmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að koma ríkjum sem til þeirra leita aftur á réttan kjöl, með þeim fórnum sem að þarf að færa. Eða finnst fólki ekki það frekar líklegt.

 


mbl.is Heimslögregla kapítalismans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn hljóta að vanda sig

Því að ekki vill nokkur stjórnmálamaður með viti setja atvinnuveg sem að veitir þúsundum störf og lífsviðurværi í hættu. Ekki vilja menn eiga það á hættu að gríðarleg verðmæti tapist sem að eru bundin í kröftugum og öflum sjávarútvegi þó svo að menn vilji breyta fyrirkomulaginu eitthvað. En þetta mál snertir ekki bara stóru útgerðarmennina heldur líka smábátasjómennina, sjómennina sem að manna skipin sem að róa eftir þessum fiski, landverkafólkið sem að kemur að vinnslu fisksins sem og þau sveitarfélög þaðan sem stunduð er útgerð. Þetta fólk hlýtur að hafa töluvert meira um málið að segja heldur en þeir stuðningsmenn vinstri flokkana sem að eru uppfullir af þeirri rómantísku hugmynd að fiskurinn sé sameign þjóðarinnar án þess að sú hugmynd hafi nokkurn hagnýtan tilgang, ekki einu sinni fyrir þjóðina. Þjóðin hefur mestan hag af því að hér sé stundaður öflugur sjávarútvegur, sama hvaða kerfi menn nota til þess að skipta á milli sín kvótanum. Þeir sem að eiga atvinnutækin til þess að veiða fiskinn hljóta að verða þeir sem að munu róa eftir honum sama hvaða kerfi við búum til. (hvort sem að það eru litlar trillur eða stórir frystitogarar) Þess vegna hljótum við að hugsa til þeirra sjónarmiða eins og allra annarra en erum ekki föst í einhverjum rómantískum hugmyndum um það að ef að ríkið tekur bara kvótann, þá verður allt gott og lífið yndislegt. Svoleiðis hugmyndir áttu kannski við á tímum hippa og frjálsra ásta en eiga ekki við um atvinnuveg sem að veitir þúsundum manna atvinnu, veltir milljörðum á ári hverju og stendur undir stórum hluta gjaldeyristekna okkar.


mbl.is Mun setja bankana aftur í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhann Pétur Pétursson
Jóhann Pétur Pétursson

með skoðanir á um það bil öllu

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband