Nýja Ísland?

Nýja Ísland sem að búsáhaldabyltingin kallaði eftir hefur aldrei verið jafn fjarlægt markmið. Jafnvel fjarlægara heldur en þegar vondi Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Upplýsingarnar skila sér ekki til þingmanna, hvað þá til almennings og ákvarðanir eru enn teknar í reykfylltum bakherbergjum. Hinir nýju pólitíkusar virðast ekki betri en hinir gömlu.

Enda við hverju bjuggust menn? Jú vissulega er Vinstri Hreyfingin Grænt framboð og Samfylkingin vera ungir flokkar en hverjir eru þar fremstir í flokki? Steingrímur J. Sigfússon er alls enginn nýgræðingur í stjórnmálum. Hann hefur þá sérstöðu meðal þingmanna að bæði tímar og þjóðfélag hafa breyst mikið síðan að hann steig fyrstur á þing, en hann ekki. Hann er sennilega eini þingmaðurinn sem að hefur flutt ræðu á Alþingi sem að fjallaði um það að Leifsstöð væri of stór. Það væri gaman að vita hvað honum finnst um Leifsstöð núna. En burtséð frá því þá er hann einn af þessum skítapólitíkusum þar sem að pólítískur frami fæst með samningum um greiða gegn greiða og að ata pólitíska andstæðinga eins miklu auri og hægt er. Það er Jóhanna líka, Össur, Ögmundur... Öll eru þau frá gamla tíma stjórnmálanna, löngu fyrir daga búsáhaldabyltingarinnar.

Og svo virðist sem byltingarsinnar hafi einfaldlega verið tamdir. Lilja Mósesdóttir var einn byltingarsinna, nú þingmaður VG. Þar eru tengslin VG við byltinguna skýr. Sjálfstæðismenn hafa lengi haldið fram að VG hafi staðið að og stutt byltinguna, til þess að koma sér til valda. Þegar einn byltingarsinna tekur síðan sæti fyrir VG á þingi þá er erfitt að sjá ekki tengslin. Þau eru í besta falli óljós en engu að síður til staðar. Jú vissulega er hún hluti af órólegu deildinni innan VG en sú deild hefur ekki séð ástæðu til þess að finna að feluleiknum og leyndinni og því hvernig menn innan ríkisstjórnar Íslands reyna stöðugt að firra sig ábyrgð.

Nýja Ísland mun koma en aðeins ef að öllum er hleypt að því. Það er mjög algengt viðkvæði þegar þessi ríkisstjórn er gagnrýnd og afsagnar krafist að þá hrökkva menn í kút og spyrja, á að hleypa hrunflokkunum að aftur. Það er einmitt lóðið, það á að hleypa öllum að uppbyggingu og myndunar nýja Íslands. Öðru vísi verður ekkert nýtt Ísland til. Spyrjum ekki hver gerði hvað og hvers vegna, hver átti sök á hverju og hver ekki. Það er vandamál fortíðarinnar. Það er alveg sama hvað við gerum við fortíðina, vandamál framtíðarinnar standa óleist. Fortíðin er jú til að læra af henni en við megum ekki láta hana draga okkur niður. Vandamál framtíðarinnar verðum við að leysa í sameiningu, með þáttöku allra flokka, allra sjónarmiða og allrar þjóðarinnar. Ef að uppbygging framtíðar og uppbygging nýja Íslands verður einkamál vinstri manna í landinu... þá verður engin framtíð og ekkert nýtt Ísland til.


mbl.is Lét Gylfi Steingrím vita?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Jóhann Pétur. Nokkrar athugasemdir við umfjöllun þína um 'Nýja Ísland':

'Vondi Sjálfstæðisflokkurinn', sem þú nefnir svo, var í helmingaskiptastjórn á móti Samfylkingunni. Þessir flokkar bera sameiginlega ábyrgð á Hruninu, ásamt svo auðvitað Framsóknarflokknum.

Lilja Mósesdóttir er afskaplega dapurt dæmi um 'byltingarsinna'. Hún var að sönnu dregin á flot í búsáhaldabyltingunni, en það voru aðrir en hún sem drógu vagninn.

Það er lífseig mýta að VG hafi 'stutt' búsáhaldabyltinguna. Þingmenn VG sáu örugglega tækifæri í 'byltingunni', en staðreyndin er sú að það var venjulegt fólk, eins og ég og þú, sem bar hitann og þungann af starfinu. VG fleytti síðan rjómann af óeigingjörnu starfi almennings pólitískt, enda stjórnað af samviskulausum eiginhagsmunasinna.

'Nýja Ísland' verður þá fyrst að veruleika þegar þjóðin er búin að losa sig við fjórflokkinn. Það er ekki nóg að skipta út einstaka þingmönnum flokkanna, nú verður að afnema áhrif þeirra á þjóðmálin með nýrri stjórnarskrá og nýjum kosningalögum. Þjóðin kallar eftir virku lýðræði - ekki flokksræði.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 19:23

2 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Ég átti ekki von á því að allir myndu samþykkja þá útbreiddu skoðun að VG hafi staðið að búsáhaldabyltingunni. En ungliðahreyfing VG skipulagði fundina, ungliðahreyfingin bauð inn til sín öllum þeim sem að tóku þátt og VG komst til valda í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar. Það er meir en nóg fyrir mig, hvað svo sem þér finnst.

Ertu að tala um að afnema fjóra flokka úr pólitík, öllu því sem að þeir standa fyrir og öllum þeim sem að styðja þeirra sjónarmið? Það er mikið verk en ég sé ekki til hvers. Hvaða tryggingu hefur þú fyrir því að nýju flokkarnir verði eitthvað betri?

Svo tek ég orð Sigurðar Líndal, lagaprófessors í munn, hvar er stjórnarskráin gölluð? Hvar talar stjórnarskráin um að hér á landi skuli vera fjórir sterkir stjórnmálaflokkar? Og ég vil benda á eitt að það eru fimm flokkar á Alþingi í dag.

Það er aðeins á einum stað, á einum degi sem að þjóðin ákveður hvaða flokkar lifa og hverjir ekki. Það er á kjördag í kjörklefanum. Þar byrjum við að breyta Íslandi. Við breytum ekki Íslandi á Alþingi og við breytum ekki Íslandi á stjórnlagaþingi. Í kjörklefanum breytum við. Ef að þú vilt fjórflokkana burt, kjóstu þá annað. Breytingin byrjar í kosningum og hvergi annars staðar. En í síðustu kosningum kaus þjóðin yfir sig vinstri stjórn sem að er allt eins spillt, allt eins rotin og fyrri ríkisstjórnir eiga að hafa verið. Það frestar Nýja Íslandi fram yfir næstu kosningar.

Kjósið rétt. Ef það er hefur einhvern tíma verið mikilvægt þá er það nú.

Jóhann Pétur Pétursson, 14.8.2010 kl. 20:59

3 identicon

Hmmm... "Ungliðahreyfing VG skipulagði fundina". Nú veist þú greinilega meira en ég veit um 'skipulag fundanna' minn  kæri

Mætti ég spyrja: Hvaðan hefur þú þessa vitneskju?

Já, Jóhann, ég er að tala um að þurrka út fjórflokkinn. Í kjölfarið verður að semja nýja stjórnarskrá og koma á nýju kosningakerfi sem útilokar að flokksræði ráði ferðinni á Íslandi.

Hvar tryggir þú Jóhann Pétur minn? Hvaða tryggingu hefur þú fyrir því að sú trygging bæti tjón þitt?

Vinsamlegast láttu það vera að sítera Sigurð Líndal, lagaprófessor við HÍ-stofnunina vestur á melum. Líttu bara á handrukkarana og sjálftökustóðið sem þessi ómerkilega deild hefur ungað út á síðustu áratugum.

Ekki veit ég hvar þú lærðir grunnatriði í lýðræði, en ég get fullvissað þig um að þjóðin er fyllilega fær um að ákveða hvaða 'flokkar' lifa á hverjum einasta degi ársins - og þessvegna oft á dag.

Reyndu nú að átta þig á þeirri staðreynd minn kæri að þjóðin hefur úrslitavaldið hvar og hvenær sem er - smbr. IceSlave. Það eru ómerkilegar fjórflokkahórur sem reyna að koma því inn hjá fólki að það ráði bara á 'kjördag'.

Mér dettur ekki í hug að 'kjósa eitthvað annað', en fjórflokkurinn skal í burtu með góðu eða illu. Breytingin byrjar í huga hvers og eins sómakærs Íslendings, en ekki í lélegu leikriti sem fjórflokkurinn kallar 'kosningar'.

Nýja Ísland er ekki fólgið í N1- fjórflokkskosningunni. Nýja Ísland er fólgið í hugarfarsbyltingu Íslendinga.

Talandi um N1 þá sýnist mér að þú sért að agentera fyrir FLokkinn, ekki satt? Samkvæmt því er þitt 'Nýja Ísland' fólgið í endurkomu sjáLfstæðisFLokksins til valda. Lifðu sæll í fávisku þinni.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 21:31

4 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Ég frábið mér svona skítkast. Nýtt Ísland verður auðvitað til með þátttöku allra, ekki bara þeirra sem að styðja Sjálfstæðisflokkinn. Ef að þú vilt kynna þínar skoðanir á þessari bloggsíðu er þér það frjálst en að kalla skoðanir annarra fávisku, bara af því að þær eru í andstöðu við skoðanir þínar, ég frábið mér allt slíkt. Ef þú vilt vera með slíkan dónaskap þá getur þú viðrað skoðanir þínar annars staðar.

Jóhann Pétur Pétursson, 17.8.2010 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhann Pétur Pétursson
Jóhann Pétur Pétursson

með skoðanir á um það bil öllu

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 667

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband