Færsluflokkur: Bloggar

Frábær dagur.

Dagurinn í dag var hreint út sagt frábær. Frábæri dagurinn hófst í gær(fyrradag) þegar Elín kom í heimsókn til mín á Akranes. Eftir að við höfum borðar hamborgara hjá foreldrum mínum og við ætluðum að kíkja á rúntinn og skoða bæinn áður en að Elín færi komu fréttirnar....Elín bað um gistingu og ætlaði að vera alla vega eina nótt í viðbót hjá mér. Víj. Og Berglind heppin...fékk hjásvæfu. Nú Elín var alltaf að tala um það að mín tengdó væri hennar tengdó....Well you got what you asked for.

Dagurinn í dag sem að er eiginlega í gær af því að klukkan er orðin svo margt var frábær. Ég og Elín eyddum öllum deginum saman, bara í að spjalla og bara eyða deginum saman. Ég held að ég hafi sannfært Elínu um hve yndislegur bær(fyrir utan göturnar) Akranes er og sé síst verri heldur en Akureyri. Hún skilur þá kannski hvers vegna þetta orð heim vefst orðið fyrir mér. Við Elín borðuðum saman, spjölluðum, fórum í leynilega rómantíska lautarferð(Ingibjörg var í öðru póstnúmeri, það var löglegt) og skemmtum okkur konunglega.

Svo eftir kvöldmat þegar ég var búinn að hafa Elínu í heilann sólarhring þá varð ég að sleppa af henni hendinni. Hún var bara sólarhring á eftir áætlun. Þá skrapp ég upp í Skorradal til þess að lenda í plat stórslysi, láta hella yfir mig plat blóði og láta verðandi björgunarmenn bjarga mér. Sagan var sú að brjálaður bóndi hafi keyrt yfir okkur. Sigurbjörn hellti svo miklu gerviblóði yfir mig að bolurinn leit út eins og notað dömubindi. Hann var eldrauður. En jæja ég fíla að hafa það sóðalegt Smile . (me sick bastard)

Takk Elín, takk Ingibjörg og takk Sibbi fyrir frábærann dag. Og takk elsku björgunarmenn sem að ég veit ekki nöfnin á fyrir að bjarga mér úr bráðum háska. Teppi hefði samt verið vel þegið.


Monthorn Jóa.

Verður maður ekki að monta sig þegar maður getur?

Nú er kominn sá tími annarinnar þar sem að kennarar og nemendur VMA fara í skemmtilegan leik. Því miður á þessi leikur sér ekkert nafn. Leikurinn felst í því að nemendur skrá sig á Innuna svona 10 sinnum á dag til þess að skoða örlög sín þessa önn. Milli vonar og ótta engjast nemendur dag eftir dag til þess að fá að sjá árangur sinn á prófunum. Kennararnir hins vegar finnst svo gaman að láta nemendur sína engjast um af kvölum að þeir geyma það eins lengi og þeir mögulega geta að skrá einkunnir.

Þetta er svo árangurinn:

Véltækni 122                                               10

Burðarþolsfræði 102                                     9

Vélfræði 412                                                 9

Efnafræði 203                                               9

Véltækni 212                                     (bara) 8

Stærðfræði 603                                             8

Kælitækni 402                                   (bara)  8


Skepna?

Ég hringdi í pabba til þess að segja honum frá frábærum árangri Man Utd sem að var komið í úrslit meistaradeildar Evrópu. Það var einlægur ásetningur minn að fagna með honum enda erum við báðir einlagir Man Utd aðdáendur en... eins og gerist stundum þá kemur skepnuskapurinn yfir mig. Þetta er alveg ósjálfrátt, ég ræð bara ekkert við þetta. Samtalið varð svona....

Pabbi: Já halló

Jóhann: Djöfulsins útivallamarkaregla?

Pabbi: Ha? hvað meinaru?

Jóhann: Ef að liðin verða jöfn eftir báða leikina þá fer það lið áfram sem að skoraði fleiri mörk á útivelli.

Pabbi: Jafnaði Barcelona?

Jóhann: Já, og komast áfram í úrslitaleikinn.

Pabbi: Ertu ekki að grínast?

Núna kom smá þögn.

Jóhann: Jú ég er að grínast, við unnum 1-0 og erum komnir í úrslitaleikinn.

Pabbi hafði á orði að ég væri skepna og að hjartað í honum hefði stoppað eitt augnablik. En eins og ég segi þetta kemur bara yfir mig, ég ræð ekkert við þetta.


Nei risavaxið ríkisskrýmsli er EKKI málið.

Hversu stór hluti þjóðarinnar viti hvað ESB raunverulega snýst um? Það verður sennilega seint eða aldrei að þessi þjóð taki raunverulega upplýsta afstöðu. Taki afstöðu til einhvers málefnis, EFTIR að hafa kynnt sér það. Það eina sem heyrist er frá ákveðnum ráðherrum Samfylkingarinnar um hvað lífið verði svo dásamlegt og yndislegt þegar við verðum komin í ESB.

Ef ykkur finnst við hafa lítil áhrif í dag, þá get ég lofað ykkur að þau verða ekki meiri eftir að við erum gengin í ESB. Við munum fá 6 þingmenn af 750 á Evrópuþinginu eftir að Lissabon sáttmálinn gengur í gildi. Og þetta leyfa fylgismenn ESB aðildar að kalla mikil áhrif.

Ég segi nei, nei, nei og aftur nei, ESB er ekki málið fyrir eina ríkustu en jafnframt fámennustu þjóð heims. Við erum miklu betur sett utan ESB.

Ég væri til í að sjá, tvær spurningar í svona könnunum. Ertu með eða móti ESB og hefur einhverja hugmynd um, um hvað ESB snýst?


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af börnum?

Ég og tengdamamma lentum, nja kannski ekki í rifrildi enda rífumst við tengdó ekki oft en svona, það kom upp ágreiningur. Reyndar sagði tengdó ekki orð en ég lýsti minni skoðun og ég sá það á auðnarráðinu að hún var ekki sammála mér. (hef ég einhvern tíma sagt ykkur hvað ég á frábæra tengdamömmu?)

Það varðar myndir af börnum. Yfirleitt finnst mér börn rosalega sæt og mér finnst gaman að sjá myndir af börnum EN, ég þoli ekki myndir af börnum í baði, á koppnum eða á klósettinu. Þær fara í mínar fínustu taugar. Það er nákvæmlega ekkert sniðugt eða sætt við barn í baði eða barn á koppnum að kúka??? Hvað ætli foreldrunum fyndist um það ef að það væru tekna myndir af þeim við sömu aðstæður?? Þar fyrir utan finnst mér fólk sem að finnst mynd af barni á klósettinu svo rosalega sætt.... það á þá við meira vandamál að stríða heldur en ég og þá er það nú mikið sagt því að eins og allir vita er ég helsjúkur.

Ég er eitt af þeim börnum (ég var einu sinni barn...eða er ennþá ég veit það ekki) sem að svona myndir eru til af. Ég er samt nokkuð viss um að allar svoleiðis myndir af mér eru...hérna...uhummm... týndar. (þeim hefur samt ekki verið fargað...ennþá). Kannski er ég á móti svona myndum þess vegna.

En mér þætti gaman að fá álit á þessu...málefni. Er þetta svona rosalega sætt og alveg ægilega sniðugt að taka myndir af börnum í baði eða á koppnum? Mér finnst um að gera að taka margar myndir af börnunum sínum, en myndir sem að maður myndi hvort eð er ekki setja upp á vegg, er ekki alveg eins gott að sleppa því að taka þær? Myndi maður sjálfur vilja eiga mynd af sér á koppnum eða í baði þegar maður var barn? Nei? Af hverju ætti þá barnið að vilja það?


Kannast við þetta.

Þetta getur komið fyrir besta fólk, bæði að vera illa drukkið og að villast í miðbæ Akraness. Þekki mörg dæmi um það. Ætli það hafi ekki verið þoka.Smile En Akranes er náttúrulega svo mikil stórborg að það er ekkert skrýtið að fólk skuli villast, sér í lagi þegar það er komið í glas.


mbl.is Villtist í miðbæ Akraness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorið er að koma.

Mér finnst eins og það sé vor í loftinu. Að vísu er ekkert sérstaklega vorlegt hérna fyrir norðan, allt á kafi í þessum andskotans snjó. En samt það er kominn vorfílingur í mig. Ég er nánast búinn að klára allar vinnubækur, flestar skýrslur búnar og einhvern veginn það er allt að klárast. Þetta er alveg að verða búið, bara nokkrir dagar í skólanum og svo lokaprófin.

Og talandi um lokaprófin, þau byrja fyrir alvöru hjá mér. Þrjú fyrstu prófin eru á tveimur fyrstu dögunum, og eitt þeirra stærðfræðipróf í Stæ 603. Þetta kallast að byrja með látum. Restin, skitin þrjú próf, dreyfast á 8 daga. Jæja það sem að drepur mann ekki það herðir mann, eða fellir mann. Það væri þá komin tími á það að ég falli í áfanga í framhaldsskóla, búinn að vera í framhaldsskóla tja í 8 ár eða 16 annir. Ég hef ekki nennt að telja öll lokaprófin sem að ég hef farið í.

En þrátt fyrir að það sé ennþá allt á kafi í snjó, þá er vorið að koma. Það hlýtur að koma einhvern tíma í þessu ískalda rassgati sem að maður býr í.

P.s. til þess að undirstrika það að ég komist aldrei yfir þetta, þá ætla ég að birta slóðina einu sinni enn http://www.youtube.com/watch?v=1gI1pGktddw&feature=related. Þetta er að sjálfsögðu crazy hamster dance.


Tilgangurinn helgar ekki meðalið...

alla vega ekki þegar kemur að mótmælum á háu eldsneytisverði. Ég vil taka það fram að ég yrði alveg ofsalega glaður ef að ég sæi álögur ríkisins á eldsneyti minnka. Heils hugar tek ég undir kröfur atvinnubílstjóranna um að eldsneytisverð lækki.

En að loka vegum, eða valda viljandi töfum í umferðinni er gróft brot á umferðareglum og skapar mikla hættu. Ég þarf ekki að nefna það hvað myndi gerast ef að alvarlegt umferðaslys yrði öfugu megin við lokunina þannig að lögregla, sjúkrabíll eða aðrir viðbragðsaðilar kæmust ekki á vettvang. Þá væru þeir sem að lokuðu veginum í verulega vondum málum.

Það virðist vera orðin regla hér á Íslandi að það sé ekki hægt að mótmæla öðru vísi en að brjóta lög og reglur. Fólk getur komið saman og komið sínum boðskap á framfæri á fullkomlega löglegan hátt. Það er eins og fólk verði að gerast lögbrjótar til þess að svala einhverri innbyggðri reiði í garð stjórnvalda. Að það þurfi að fá útrás fyrir sína gremju í garð stjórnvald og láta það bitna á öðrum. Þeir sem að ráða þessu landi eru ekki fastir í umferðateppunum, allir aðrir eru það.


mbl.is Bílstjórar lokuðu hringvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loðnuhrogn.

Loðnuhrogn eru rándýr illa lyktandi viðbjóður. Ótrúlegt að Japanir og Rússar skuli borga stórfé.... og þá meina ég STÓRFÉ fyrir þennan gula illa lyktandi skít sem að lítur út eins og eyrnamergur. Bragðið af þessu gula ógeði er heldur ekkert sérstakt.

Á miðvikudaginn síðasta fékk ég sem sagt ekki að fara um borð í skip heldur var ég sendur inn í hrognavinnslu til þess að rífa dótið í sundur af því að það átti að fara að þrífa draslið. Fyrsta verk var að taka í sundur færibönd, draga þau drifhjólunum og setja í sýrubað. Verst var samt þegar við rifum plastlistana undan færiböndunum því að þar sátu allt að þriggja vikna gömul loðnuhrogn. Ef að þau lyktuðu illa gul, þá lyktuðu þau enn verr grá af myglu.

Svo fékk ég skemmtilega tilbreytingu. Í stað þess að vera nálægt hrognum, þá fékk ég að rífa í sundur dælur....sem að hefði getað verið gaman....þetta voru skrúfudælur....fullar af gamalli loðnu. Djöfulsins viðbjóður. Þarna var ég í frystihúsi, í stígvélum vaðandi loðnuviðbjóð upp yfir ökkla. En þetta er mikils virði því að þetta eina litla frystihús með 15-20 pólverja í vinnu velti einum milljarði á tveimur vikum.

En þá fékk ég laun erfiðisins. Það var bankað á öxlina á mér. Á bak við mig stóð þessi ljómandi huggulega gella, í pilsi sem að mætti nota sem ágætis belti, og svo flegnum bol að ég hefði getað svarið að ég sá hluta úr geirvörtu...(kannski ímyndun en ég er náttúrulega sjúkur maður) Hún stakk algerlega í stúf við umhverfið í háhæluðu stígvélunum sínum inn í frystihúsi. Ég spurði hvað hún væri að gera þarna... hún sagðist vera að vinna. Það hvarflaði að mér að spyrja hvort að hún ynni liggjandi eða standandi en ég sleppti því. Ég kann mig nefnilega.


Ný vinna.

Byrjaði í nýrri vinnu í gær. Núna vinn ég hjá "Skipaþjónustu HB Granda, Akranesi". Í rauninni er þetta bara verkstæði sem að gerir við skip. Það fyrsta sem var gert var að galla kallinn upp. Fékk þennan fína galla merktan HB Granda með eins stóru merki á bakinu og hægt var að koma fyrir. Svo voru pantaðir handa mér öryggisskór. Verkstjórinn spurði mig hvort ég vildi ekki létta og þægilega skó, úr því að það stendur til að ég fari að vélstjórnast í sumar. Ég sagði jú jú, þá sagði hann að hann myndi bara græja þetta. Skórnir myndu birtast fyrir sunnan í dag.

Og skórnir birtust.... í leigubíl... rúskinnsöryggisskór sem að eru svo lágir og þægilegir að ég hef aldrei kynnst öðrum eins öryggisskór. Þeir eru líka svo fínir að það hálfa væri nóg. Ég og IT bárum þá saman við spariskóna mína og athuguðum hvort parið væri fínna. Spariskórnir mínir töpuðu.

Fyrsta daginn var ég að vinna með manni sem er alveg hreint dýrslegur. Hann er eldri kall sem að tekur u.þ.b. 1 tóbakshorn í nefið á dag. (það er enginn lygi því að þegar við fórum heim þá var hornið næstum því tómt) Svo lekur horið(brúnt að lit) og dropar svona hér og þar í kringum okkur þar sem að við erum að vinna. Það dropar jafn vel yfir hlutina sem við erum að vinna með.

Við fórum suður í Reykjarvíkurhöfn að dytta að skipi sem að heitir Faxi og vorum settir í að taka í sundur sjódælur. Vinnufélagi minn naut forréttinda og fékk dæluna sem að var uppi á pöllum. Ég fékk dæluna sem að var undir ljósavélinni, út við síðu. Og það besta var að helv. ljósavélin var í gangi allan daginn. Svo var ljósavélin með óþekkt og vildi ekki ganga á flotaolíunni því að það var of mikið af vaxi(parafini) í olíunni og var því alltaf að drepa á sér. Vaxið var náttúrulega sök vélstjóranna um borð því að ekki færu olíufélögin að selja lélega flotaolíu. En þess vegna varð allt ljóslaust í skipinu öðru hvoru eða ca. einu sinni á klukkutíma. Um miðjan dag fórum við í kaffi og ég notaði tækifærið og fór á klósettið. Svo heyri ég að ljósavélin var farin að hiksta og sá þá fram að vera í "miðjum klíðum"  og það yrði allt ljóslaust.(sá fram á að pissa á skóna mína eða eitthvað álíka sniðugt) En ég sendi sendi ljósavélinni mjög illar hugsanir og að hún myndi hafa verra af ef að hún dræpi á sér núna. Hún skildi sneiðina og ákvað að bíða með að drepa á sér þangað til korteri seinna. Takk.

P.s. vinnutíminn þarna er hræðilegur. Það er mæting klukkan 7.....SJÖ!!!!!!!!. Það eina góða við það er að við byrjum á morgunkaffi. Heilinn þarf ekki að vakna fyrr en svona hálf átta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhann Pétur Pétursson
Jóhann Pétur Pétursson

með skoðanir á um það bil öllu

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband